
Það má vera að verði ekki stór verðbólguhrina í kjölfar kjarasaminganna nú í vor. Þó er líklegt að flest fyrirtæki séu þess albúin að ýta þessu út í verðlagið. Og þá hækka lánin – og ávinningurinn af kjarasamingunum verður fljótur að hverfa. En samt er ekki annað hægt en að hækka launin.
Þetta er vítahringur sem íslenska hagkerfið er í.
Fyrir nokkru birtist viðtal við þáverandi forstjóra Íbúðalánasjóðs. Á þeim tíma var rætt um að sjóðurinn byði í meiri mæli upp á óverðtryggð lán. Forstjórinn sagði hreinskilnislega að það væri ekki hægt, þá myndi Íbúðalánasjóður örugglega fara á hliðina. Hann bætti svo við að enginn gæti rekið fyrirtæki með slíkum hætti á Íslandi.
En það er þetta sem íslenskum heimilum er boðið upp á. Hagfróður maður sendi þessar línur:
En þannig eru nú flest íslensk heimili rekin með fáum undantekningum. Lánin eru í verðtryggðum krónum en tekjurnar í óverðtryggðum krónum. Þessu fylgir rosaleg áhætta eins og þeir þekkja sem hafa lent í því að eigið fé þeirra í húsnæði sem hefur tekið mörg ár að borga – gufar hreinlega upp.
Við þessar aðstæður er alveg ljóst að launþegahreyfingin er að taka hrikalega sjéns með að knýja fram launakröfur sem verður væntanlega velt út í verðlagið. Þannig er mekaníkinn í hagkerfi ónýts gjaldmiðils.
Íslenskt samfélag er samt fjarri því að taka upp alvöru gjaldmiðil, við höldum áfram að nota krónuna sem líka er undirrót stéttaskiptingar. ESB aðildin er lifandi dauð. Ég er reyndar með þá kenningu að ef við færum í ESB yrði það game changer, eins og það kallast, það myndi breyta öllum forsendum og viðmiðum. Við myndum upplifa tækifæri og nýtt hugarfar. Það yrði óumræðanleg lyftistöng fyrir íslenskt þjóðlíf.
Fljótlega eftir það myndi engum heilvita manni detta í hug að ganga úr bandalaginu.