„Ísland er ekkert að fara að springa í tætlur…“
Þetta sagði Ármann Höskuldsson jarðfræðingur í Morgunútgáfunni nú áðan.
Það er gott að vita það. Ármann hefur verið frekar yfirlýsingaglaður varðandi eldsumbrotin eystra meðan Magnús Tumi Guðmundsson hefur verið varkárari í orðum.
Ég verð að viðurkenna að það hafa komið dagar sem ég hef verið með gjörsamlega í maganum yfir þessum atburðum.
Séð fyrir mér að þurfi að flytja fjölda Íslendinga burt af heimilum sínum, jafnvel okkur öll – kannski alla leið til Skotlands nema strókinn leggi líka þar yfir?
Ég hef hrætt vinnufélaga mína með því að Nató muni senda hingað freigátur og flugvélamóðurskip í þessu skyni – því við höfum varla nema eitt varðskip til taks.
Ég ef reyndar þeirrar gerðar að ég þarf alltaf að hafa áhyggjur af einhverju – ef ekki þessu, þá einhverju öðru. Ebólan er reyndar of langt í burtu til valda alvöru kvíða.
En þetta eru svosem býsna hrollvekjandi lýsingar, að frá eldgosinu í Holuhrauni komi meira af gasi og brennisteini en úr öllum gosum á 20. öld.
Og enn á stóra eldstöðin, Bárðarbunga sjálf, eftir að gjósa. Manni skilst á jarðfræðingunum að meiri líkur en minni séu á því að það gerist. Þetta gæti orðið ógurlegur hvellur – og úr þessu gæti komið skelfileg eimyrja.
Er furða þótt maður hafi áhyggjur. En – „Ísland er ekkert að fara að springa í tætlur“.