Misræmið milli dómnefnda og þess sem almenningur valdi í Evróvisjón er dálítið skemmtilegt.
Þannig sigruðu pólsku mjólkurbústýrurnar í kosningunni meðal almennra áhorfenda í Bretlandi, en þær voru í öðru sæti á Íslandi.
Hjá íslenskum áhorfendum, í símakosningunni, voru Hollendingar efstir en Austurríki var í þriðja sæti.
Ein skýring gæti náttúrlega verið sú hversu margir Pólverjar búa á Íslandi og í Bretlandi – en svo gæti líka hugsast að margir séu spenntari fyrir þrýstnum barmi en skeggjaðri konu.
En íslenska dómnefndin setti Pólland í 23. sæti, en breska dómnefndin setti lagið í neðsta sæti.
Hér er áhugavert blogg. Þarna skrifar Alan Renwick, stjórnmálafræðingur við háskólann í Reading, um viðhorfin sem birtast í atvkvæðagreiðslunni í gærkvöldi, hann flokkar þær í þrennt, atkvæðagreiðsluna heilt yfir, símakosninguna og álit dómnefnda. Hann er að kanna hvort þarna sé hægt að greina mismunandi viðhorf til kynferðismála með því skoða hverjir greiða atkvæði með Conchitu Wurst – og kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé, en að mismunurinn birtist fremur í áliti elítufólksins sem situr dómnefndunum en í símakosningunni.
Þannig fær Conchita mjög fá atkvæði meðal dómnefndanna í Rússlandi og fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna.
En svona lítur kort Renwicks út ef einungis er byggt á áliti dómnefndanna.
En svona lítur kortið út ef símakosningin meðal almennra áhorfenda er skoðuð.