Hinir ríku hafa unnið stéttastríðið, skrifar Josh Bornstein í grein í Guardian.
Fremur en að deila auði sínum reyna þeir að forðast að borga skatta og hella svo úr skálum reiði sinnar ef reynt er að koma lögum yfir þá, segir Bornstein.
Alls staðar í heiminum erum við farin að þekkja þetta mynstur, en Bornstein segir frá því þegar hann fór að vinna á virtri lögfræðistofu.
Þá þurfti hann ekki lengur að standa í röð í bankanum, heldur fóru bankamenn að hafa samband við hann, bjóða honum fjárfestingakosti og aðferðir til að komast hjá því að greiða skatt – líkt og það eigi að vera eitthvað valkvætt.
Bornstein lýsir vaxandi stéttaskiptingu, nefnir ríkasta eitt prósentið í Ástralíu sem sankar sífellt að sér meiri auði eins og annars staðar, og lágmarkslaunin í Bandaríkjunum sem eru svo léleg að ekki er hægt að lifa á þeim nema að fá félagslega aðstoð.
Hann vísar svo í orð auðmannsins Warrens Buffett sem hefur mælst til þess að skattkerfinu verði breytt svo hann geti borgað hærri skattprósentu en ritarinn hans.
„Við unnum,“ sagði Buffett um stríðið milli stéttanna.
Borstein nefnir aðferðir sem stórfyrirtæki og auðmenn nota til að komast hjá því að greiða til samfélagsins og reiðina sem grípur um sig þegar nefnt er að jafna megi kjörin eða tækifærin – ellegar að skoða hvernig er í pottinn búið.
Og eins og hann segir er það helst Frans páfi sem reynir að malda í móinn þar sem stjórnmálamenn hafa gefist upp. Hann sé í fararbroddi þar sem róttækar hugmyndir um efnahagsmál eru annars vegar með tölur sínar um ójöfnuð, dýrkun fjármagnsins og smánarlega stéttaskiptingu.