Ég fór ekki sjálfur, þetta er ekki alveg mín deild, en ég hef heyrt úr mörgum áttum að tónlistarhátíðin Sónar sem var haldin í Hörpu um helgina hafi verið afar vel heppnuð.
Þetta segir mér ungt fólk sem sótti hátíðina.
Fréttirnar af hátíðinni hafa hins vegar verið nokkuð sérkennilegar.
Það er stanslaust fjallað um fjölda fíkniefnamála sem hafi komið upp á hátíðinni. Fjölmiðlarnir og lögreglan keppast við að telja þetta.
Jú, þetta bætir sjálfsagt einhverja tölfræði hjá lögreglunni og gefur fjölmiðlum smá fréttaefni um helgi þegar lítið er á seyði, en kannski er dálítið veglegt að kalla það „fíkniefnamál“ þegar einhver er tekinn með smá hass eða e-töflu til eigin nota.
Og mæli ég þó alls ekki með slíkri neyslu – fremur en notkun vímuefna almennt.