Nafnlausa bréfið sem nú er komið í ljós að Jón Steinar Gunnlaugsson skrifaði vakti mikla úlfúð á sínum tíma. Það virkaði dálítið skrítið, heimurinn er jú fullur af nafnlausum skrifum, en ástæðan var auðvitað sú að marga grunaði að þarna væri á ferð málsmetandi maður – maður sem hefði áhrif innan réttarkerfisins. Bréfið var samið þannig að þekking á atburðum og lögum leyndi sér ekki.
Ýmsa grunaði reyndar að Jón Steinar hefði verið þarna á ferðinni, en menn kunnu ekki við að segja það upphátt. Hann var jú sjálfur hæstaréttardómari og það tíðkast ekki að dómarar séu að skrifa slík bréf, hvað þá dreifa þeim út um allt. Í bréfinu kom meðal annars fram sú skoðun að dómarar væru ekki að dæma eftir lögunum og mikil andúð á Markúsi Sigurbjörnssyni.
Í grein sem Jóhann Hauksson skrifaði í DV 2008 er ræddur sá möguleiki að Jón Steinar hafi skrifað bréfið. Þar var vitnað í ummæli sem féllu vegna bréfsins, Eiríkur Tómasson, sem þá var lagaprófessor en situr nú í Hæstarétti, sagði á útvarpi Sögu 26. febrúar 2007:
Ég er þeirrar skoðunar að meðan að bréfritari hefur ekki gefið sig fram þá séu líkur til þess að bréfið sé runnið undan rifjum manna sem eru í réttarkerfinu, annað hvort lögmenn eða dómarar. Ég vil ekki trúa þessu en það setur að manni óhug. Það er bráðnauðsynlegt fyrir réttarkerfið í landinu að bréfritari gefi sig fram.
En Hreinn Loftsson, lögfræðingur sem var stjórnarmaður í Baugi, skrifaði:
Einhvers staðar húkir höfundur nafnlausa bréfsins og vonast til að skrif hans hafi áhrif áframgang Baugsmálsins. Hann tilheyrir náhirðinni sem um langt skeið hefur nagað í æru forráðamanna Baugs. Hann lýsir sjálfum sér sem hugleysingja. Bréfi hans var smeygt inn um bréfalúguna hjá málsmetandi mönnum, hljóðlega og í laumi.
Jón Steinar var semsagt mjög óhefðbundinn hæstaréttardómari og ekki bara vegna þess að hann skilaði mörgum sérálitum. Ég hef áður sagt frá því að hann hafi stundað það að hringja í fjömiðlamenn meðan hann var dómari – fólk á fjölmiðlum á yfirleitt ekki í slíkum samskiptum við dómara. Þeir eru flestir fjarlægir og fáskiptnir, forðast fréttamenn ef þeir geta. Og svo er það auðvitað orðrómurinn sem Þorvaldur Gylfason vísaði í um að Jón Steinar hefði lagt drög að einni kærunni um ógildingu kosninganna til stjórnlagaþings.
Jón Steinar höfðaði meiðyrðamál vegna þessara orða Þorvaldar en tapaði bæði í héraðsdómi og Hæstarétti. Jón Steinar brást reiður við og skrifaði í grein sem birtist 27. september og sagði að dómararnir væru að skrifa „ömurlega sögu sjálfs sín“:
Þeim sem lesa þetta getur ekki dulist að dómurunum er ekki sjálfrátt. Þeir hljóta að eiga einhver persónuleg erindi við mig.