Á hinum prýðilega ferðavef turisti.is má lesa hvaða flugfélög fljúga til og frá Íslandi næsta vetur.
Mesta athygli vekur náttúrlega Easy Jet sem flýgur á ýmsa staði á Bretlandi, en líka til Genfar og Basel – það er allt í einu auðvelt að komast milli Íslands og Sviss.
Hins vegar er furðulegt hversu lítið er flogið til Þýskalands yfir veturinn, sérstaklega ef miðað er við hið mikla framboð á flugi milli Íslands og Þýskalands á sumrin. Eina flugið til heimsborgarinnar Berlínar er Wow þrisvar í viku, Icelandair flýgur daglega til Frankfurt og nokkrum sinnum í viku til München.
Margir Bretar koma hingað í helgarferðir yfir veturinn og Íslendingar fara á fótboltaleiki á Englandi. Þó má segja að miklu hagkvæmara sé fyrir Íslendinga að fara til Þýskalands, því verðlag þar er lægra og á það við um mat, gistingu, samgöngur og fatnað.
Ekki er hægt að segja að samkeppnin sé ýkja mikil hérna á veturna, eða eins og segir á turisti.is:
Af þessum þrjátíu og tveimur flugleiðum sem í boði verða í vetur þá er aðeins samkeppni á fimm þeirra. Til Oslóar og London fljúga þrjú félög og Icelandair og WOW air fljúga daglega til Kaupmannahafnar. Þeir sem ætla í fótboltaferð til Manchester geta áfram valið á milli easyJet og Icelandair og ef ferðinni er heitið til Parísar þá fjúga bæði WOW air og Icelandair þangað.