Orð Brynjars Níelssonar um Evrópska efnahagssvæðið hafa vakið mikla athygli. Þar segir Brynjar frá því hversu stór hluti starfs Alþingis fari í að innleiða tilskipanir sem koma frá Evrópusambandinu í gegnum EES. Því miður liggur þetta í þagnargildi í hinni afar ófrjóu og ómálefnalegu umræðu sem hér tíðkast um Evrópumál. Staðreyndin er nefnilega sú að með rökum sem eru gjarnan notuð gegn ESB aðild væri eins hægt að mæla sterklega fyrir því að Ísland gangi úr EES. En umræðan er ekki nógu heiðarleg til að komast á þann stað.
Brynjar sagði:
Þegar maður situr á þinginu og er að horfa á þetta, þá spyr maður sig auðvitað, væri ekki einfaldara að vera bara inni í Evrópusambandinu? EES-samningurinn, dugar hann eins og hann er núna eða þurfum við að endursemja það eitthvað? Það eru alls konar hlutir í þessum samningi sem ég hef aldrei skilið af hverju við þurfum að fara eftir regluverki þeirra með og mér finnst ekki einu sinni tengjast þessum innri markaði í raun. Þetta er bara eitthvað sem hefur gerst og maður einhvern veginn situr með þetta í fanginu og veit ekki sitt rjúkandi ráð.
Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, bregst við þessu á Facebook og segir:
Loksins! Loksins heiðarleg umræða um hugsanlega aðild Íslands að ESB byggð á staðreyndum fremur en fánýtu og innantómu sjálfstæðisgaspri. Staðreynd nr. 1: Samingurinn um aðild Íslands að EES felur í sér stórkostlegt afsal á fullveldi landsins. Staðreynd nr. 2: Samþykkt Alþingis 1993 um aðild Íslands að EES var brot á stjórnarskrá lýðveldisins. Staðreynd nr. 3. Að ýmsu leyti myndi ESB styrkja fullveldi Íslands því að við hefðum rétt til að eiga hlut í ákvörðunum á vettvangi ESB. Staðreynd nr. 4: Aðild Íslands að ESB þýðir formlega aðild að ríkjabandalagi sem hefur ýmsa þætti sambandsríkis (federal state).
Þjóðin ein á að velja um framtíðarskipan tengsla sinna við ESB. Við krefjumst þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna samhliða sveitastjórnarkosningum í vor!