Samfylkingin er að fara í prófkjör um uppröðun á lista í borgarstjórnarkosningunum í vor. Fimmtán frambjóðendur vilja fá sæti á listanum.
Samfylkingunni er ekkert sérlega vel við endurnýjun, líkt og sást í síðustu þingkosningum. Borgarfulltrúar sem voru fyrst kosnir í borgarstjórnina 2002 vilja fá fyrstu tvo sætin – og þau virðast ætla að vera sjálfkjörin í þau, Dagur B. Eggertsson og Björk Vilhelmsdóttir.
Slagurinn stendur svo um þriðja sætið. Þar er að takast á fólk eins og varaborgarfulltrúarnir Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir og fyrrverandi þingmaðurinn Skúli Helgason.
Og reyndar eru sjö aðrir frambjóðendur sem vilja komast í þriðja sætið, eða hið þriðja og fjórða.
Samfylkingin fékk mjög lélega kosningu í síðustu borgarstjórnarkosningum, aðeins þrjá borgarfulltrúa. Það varð henni til bjargar eftir kosningarnar að hún komst í samstarf við Besta flokkinn. Möguleikar flokksins á að vera áfram við stjórnvölinn í Reykjavík hjóta að teljast nokkuð góðir. Hún getur sjálfsagt bætt einhverju fylgi við sig.
Hins vegar er spurning með Besta flokkinn sem nú hefur umbreyst yfir í Bjarta framtíð. Þar nýtur Jóns Gnarr ekki lengur við og næsta öruggt að eitthvað af fylginu leitar burt. Framboð Pírata í borginni gæti sett strik í reikninginn, ef vel tekst til með framboðslistann. Píratar hafa verið að standa sig vel í þinginu – það gæti vel farið svo að þeir tækju meira en tíu prósent af atkvæðum í borginni.
Þannig gæti útkoma kosninganna orðið sú að enginn flokkur verði afgerandi stærstur.