Með innflutningi á smjöri og kjúklingum og sölu þessara vara undir því yfirskini að þær séu íslenskar eru komnir stórir brestir í varnarmúrinn um íslenskan landbúnað. Meira að segja forsvarsmenn bænda bregðast reiðir við – verri auglýsingu fyrir haftakerfið er varla hægt að hugsa sér.
Þetta sýnir að í raun er það hentistefna sem ræður ferðinni. Það er allt í lagi að plata neytendurna ef svo ber undir. Prinsíppin sem kerfið byggir eru fagurgali.
Við lifum í veruleika sem landbúnaður og matvælaframleiðsla þarf að laga sig að. Erlendir ferðamenn fara að nálgast það að vera þreföld íbúatala þjóðarinnar. Það eru mun fleiri munnar sem þarf að metta nú en áður. Eftirspurn eftir íslenskum matvörum eins og til dæmis skyri fer mjög vaxandi erlendis.
Á sama tíma er að verða vakning í lífrænni framleiðslu á Íslandi og þeirri framleiðslu sem byggir á því að framleiða gæðavöru ofan í kröfuharða neytendur. Þá er en nauðsynlegt að neytandinn viti hvaðan varan kemur. En hann er líka tilbúinn að greiða hærra verð fyrir hana.
Því miður er subbuskapur og fúsk alltof algengt í matvælaframleiðslunni, eins og dæmið um falsaða smjörið og kjúklingana sýnir. Stórfyrirtæki eru mjög aftarlega á merinni í vöruþróun, það eru smáframleiðendur sem eru farnir að vísa veginn eins og mátti sjá á matarmarkaði í Hörpu rétt fyrir jól. Það er samt við ramman reip að draga. Við þurfum kerfi þar sem framtak og gæði njóta sín. Þá ætti ekki að vera nein ástæða til að óttast framtíðina.