Ein afleiðing átakanna í Egyptalandi er algjört hrun í ferðamannaiðnaði sem hefur verið ein aðalatvinnugreinin í landinu.
2010 var metár í ferðamennsku í Egyptalandi, þá komu 14 milljón ferðamenn til landsins. Þá starfaði 1 af hverjum 7 landsmönnum við ferðaþjónustu.
Vinur minn einn fór um daginn að skoða píramíðana í Giza. Hann var nánast einn á svæðinu. Venjulega er þarna ys og þys og mikill ágangur.
Hótel standa tóm. Í vor var sagt frá því að nýting hótela í Kaíró væri 15 prósent en eingöngu 5 prósent í Luxor.
Nú á ástandið enn eftir að versna. Enn hefur fækkunin ekki orðið jafnmikil í baðstrandabæjunum við Rauðahaf, Hurghada og Sharm el Sheik. En hrun er líka yfirvofandi þar, þrátt fyrir að verð hafi lækkað mikið.
Þetta fátæka og fjölmenna land má illa við þessu.
Fólk hættir samt ekki að ferðast, heldur leitar annað. Í Grikklandi er nú metár í túrisma. Það er ekki síst Kínverjum og Rússum sem fjölgar. Þetta eru ekki mjög ævintýragjarnir ferðamenn, heldur fara gjarnan saman í hópum á sömu staðina.
Kínverjarnir troðast nú um þrönga stíga Santorini svo liggur við að eyjan sé að sökkva – meðan teppasölumenn, úlfaldasmalar og leiðsögumenn við píramíðana eiga dapra daga.