fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Eyjan

Fjórflokkurinn – og hinir flokkarnir sem hafa komið og farið

Egill Helgason
Laugardaginn 20. apríl 2013 16:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er staðreynd að íslenskum stjórnmálum verða nýir flokkar  ekki langlífir.

Það er talað um fjórflokkinn, jú vissulega er flokkaskipanin sú í grundvallaratriðum.

Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag.

Sem varð svo Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking og Vinstri grænir.

Svona hefur þetta verið alla sögu íslenska lýðveldisins.

Stærsta breytingin síðustu árin er sú að Samfylkingin, arftaki Alþýðuflokksins, stækkaði á kostnað þess sem áður hafði verið Alþýðubandalag. Forðum tíð voru sósíalistar einatt sterkari en kratar.

Kvennalistinn lifði lengur en aðrir nýir flokkar. Hann tórði fjögur þing – undir lokin var fylgið orðið mjög lítið. En flokkurinn klofnaði loks, hluti hans rann inn í Samfylkinguna þegar hún var stofnuð.

Frjálslyndi flokkurinn var upphaflega stofnaður í kringum Sverri Hermannsson. Hann náði inn tveimur mönnum í kosningunum 1998, fjórum í kosningunum 2003 og 2007. 2009 datt hann út af þingi. Þá höfðu geisað mikil innanflokksátök sem urðu þess valdandi að tveir af þingmönnum Frjálslyndra gengu úr flokknum.

Þjóðvaki var flokkur Jóhönnu Sigurðardóttur eftir að hún fór úr Alþýðuflokknum. Þjóðvaki náði fjórum mönnum á þing 1995. Árið eftir sameinuðust Þjóðvaki og Alþýðuflokkurinn í einum þingflokki en síðan runnu báðir flokkarnir inn í Samfylkinguna.

Borgaraflokkurinn vann stærsta sigur sem nýr flokkur hefur unnið í kosningunum 1987. Fékk sjö menn á þing. En í kosningunum á eftir var flokkurinn búinn að klofna, tveir þingmannanna voru gengnir í Sjálfstæðisflokkinn. Borgaraflokkurinn náði ekki manni inn á þing 1991.

Borgaraflokkurinn var flokkur Alberts Guðmundssonar – sem yfirgaf hann til að verða sendiherra – rétt eins og Bandalag jafnaðarmanna var flokkur Vilmundar Gylfasonar. BJ var ekki svipur hjá sjón eftir andlát Vilmundar.

BJ náði fjórum mönnum á þing 1983. 1986 gengu þrír þeirra í Alþýðuflokkinn en sá fjórði í Sjálfstæðisflokkinn og flokkurinn var úr sögunni.

Samtök frjálslyndra og vinstri manna entust aðeins lengur. Þau fengu fimm þingmenn kjörna 1971, urðu þess valdandi að Viðreisnarstjórnin féll, flokkurinn fór beint inn í ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi. En klofningur kom fljótt upp í flokknum, hann fékk tvo menn kjörna í kosningunum 1974, frambjóðandi flokksins á Austurlandi, Ólafur Ragnar Grímsson, náði ekki kjöri. Svo var það búið.

Þjóðvarnaflokkurinn fékk tvo þingmenn kjörna 1953. Í næstu kosningum, 1956, náði flokkurinn ekki á þing.

Loks er að nefna að Borgarahreyfingin fékk fjóra þingmenn kjörna í kosningunum 2009. Ósætti kom fljótt upp í röðum þingmanna flokksins, Þráinn Bertelsson gekk loks í VG og nefndist flokkurinn upp frá því Hreyfingin. Birgitta Jónsdóttir ákvað síðar að hún ætti ekki samleið með Hreyfingunni og tók þátt í að stofna Pírataflokkinn. Hreyfingin rann fyrir kosningar að mestu leyti inn í Dögun.

Það er frjór jarðvegur fyrir ný framboð. Þau hafa aldrei verið nálægt því jafnmörg. Og það sætir tíðindum að fleiri en eitt þeirra eiga möguleika á að koma mönnum á þing. Líklegt er að Pírötum takist það og Bjartri framtíð – og kannski gæti eitt framboð til náð þessum árangri? Það er ekki óhugsandi.

En sagan sýnir að nýir flokkar  hafa enst illa, eins og má lesa hér að ofan. Það eru ýmsar skýringar á því. Fólk fer inn á þing með stórar hugsjónir, rekst á veggi gamals kerfis og verður fyrir vonbrigðum. Það hélt það gæti valdið breytingum, jafnvel skipt sköpum í einhverjum málum – en svo er ekki. Niðurstaðan verður oft sú að þingmenn nýju flokkanna eru býsna einir í sinni baráttu – eða sogast jafnvel í átt til gömlu flokkanna sem hafa sitt fastmótaða skipulag.

nato-3493-10

Samtök frjálslyndra og vinstri manna voru örlagavaldur í kosningunum 1971. Þau voru þá nýstofnuð, að megninu til vegna klofnings úr Alþýðubandalaginu. Viðreisnarstjórn Sjálfstæðsflokks og Alþýðuflokks féll í kosningunum – þá beið Alþýðuflokkurinn afhroð– en Samtökin fóru beint inn í ríkisstjórn með tvo ráðherra, Hannibal Valdimarsson og Magnús Torfa Ólafsson. Magnús varð menntamálaráðherra, hann hafði stuttu áður verið bóksali sem sló rækilega í gegn í spurningaþáttum í útvarpinu. Samtök frjálslyndra og vinstri manna náðu tveimur mönnum á þing í kosningunum 1974, en lognuðust svo út af, jafnvel þótt bæði Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson hefðu verið meðlimir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Könnun – Ísland og Evrópusambandið

Könnun – Ísland og Evrópusambandið