

Það er mikill ákafi í þingmanninum Ásmundi Einari Daðasyni sem hefur áhyggjur af stöðu íslensku lopapeysunnar.
Ásmundur Einar vill að sett verði lög um að lopapeysur verði prjónaðar á Íslandi.
Það vill reyndar svo til að flestir aðilar sem stóðu í svona framleiðslu eru farnir á hausinn, en hins vegar dafna ágætlega lítil fyrirtæki sem hafa gert tískuvarning úr fatnaði sem er í ætt við lopapeysuna.
Þeir hafa ekki átt annan kost en að láta framleiða vöruna fyrir sig erlendis.
Ásmundur Einar talar um aldalanga hefð í þessu sambandi. En þá fara menn að gúgla – það getur reynst gagnlegt – og í ljós kemur að íslenska lopapeysan er varla nema svona 60 ára gömul.
Í þessu bloggi hinnar margfróðu Hörpu Hreinsdóttur segir að íslenska lopapeysan komi fram á sjötta áratug síðustu aldar, bloggarinn heldur meira að segja á lopapeysu, svipaðri hinni íslensku, sem hún hefur fundið á Krít. Munstrin sem fóru að tíðkast á peysum á árunum eftir stríð eru hugsanlega komin frá Grænlandi eða Svíþjóð.

Farmer´s Market er nútímalegt fyrirtæki sem framleiðir fatnað í anda lopapeysunnar.