fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
Eyjan

Ástæðan fyrir endalokum Dairy Queen á Íslandi

Egill Helgason
Fimmtudaginn 14. júní 2012 09:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um daginn skrifaði ég litla færslu um Dairy Queen ísinn góða sem eitt sinn fékkst á Íslandi. Ég fékk svoleiðis í vestur í Kanada fyrir fáum vikum.

Eftir þetta var mér bent á grein sem birtist í Morgunblaðinu 1994. Hún er eftir Vilhjálm Árnason hæstaréttarlögmann, segir þar frá endalokum Dairy Queen á Íslandi. Það er eins og oft er á Íslandi að einokunaröflin koma við sögu.

„Að gefnu tilefni: Mjólkurísgerð komið á kné

„Einhvern tímann á tímabilinu nálægt árinu 1960 átti Þorvarður Árnason bróðir minn tal við mig og tjáði mér fremur dapur í bragði að Mjólkursamsalan hefði tilkynnt sér að hann yrði að hætta framleiðslu og dreifingu á mjólkurísvörum út um allt land og jafnvel að hætta einnig ísbúðarrekstri í Reykjavík þar sem Mjólkursamsalan væri nú í stakk búin til þess að annast þessa eða svipaða starfsemi milliliðalaust.“

Samningur vegna framleiðslu og sölu mjólkuríss á Íslandi var gerður milli Þorvarðar heitins Árnasonar forstjóra og bandarísks fyrirtækis 3. júní árið 1954.

Samningur þessi var hefðbundinn einkaumboðssamningur (franchise agreement) með tilheyrandi réttindum og skuldbindingum um gæðakröfur framleiðslunnar, um notkun vörumerkis, um greiðslu fyrir einkaumboðsréttinn o.fl.

Það sem var sérstakt við þennan samning var það, að þessi tegund framleiðslu hafði ekki tíðkast áður utan Bandaríkjanna.

Tildrög þessa samnings voru reyndar þau að gamall vinur og skólabróðir undirritaðs, Páll Ásgeir Tryggvason, síðar ambassador, kom heim frá Bandaríkjunum og hafði þá með sér vitneskju um þessa mjólkurafurð þar fyrir vestan og álitlegt gæti verið að hefja slíka framleiðslu hér á Íslandi.

Þeim er þetta ritar leist vel á þessa hugmynd Páls og þeir ákváðu að láta á reyna hvort hægt væri að ná samningi við bandaríska fyrirtækið um framleiðslu og sölu mjókuríss hér á landi. Það tókst. Ákveðið var að fá Þorvarð Árnason til þess að gera samninginn og stjórna væntanlegu fyrirtæki.

Við fengum fé að láni hjá Tryggva Ófeigssyni útg.m. til þess að Þorvarður gæti farið til Flórída og kynnt sér þennan rekstur.

Til þess að hægt væri að framleiða og selja ísinn þurfti að fá hráefnið, þ.e. mjólkurblönduna, frá Mjólkursamsölunni, sem hafði einkarétt á sölu mjólkur. Ýmsir annmarkar voru á því í byrjun að Mjólkursamsalan gæti framleitt þessa blöndu eftir formúlu frá Dairy Queen. Þess vegna var ísvél sett inn í Mjólkursamsölu til þess að nota hana til þess að ná tökum á framleiðslu blöndunar. Árið 1955 var opnuð ísbúð í Reykjavík.

Dairy Queen ísinn var fljótt mjög vinsæll og seldist eins og heitar lummur strax eftir að salan hófst. Það kom því fljótt í ljós að hér var á ferðinni mjólkurafurð sem neytendur kunnu að meta og hlaut að vera mjólkurframleiðendum í hag vegna viðbótarsölu á mjólk.

Árið 1957 reyndum við mjólkuríssölu á Ítalíu með fyrirgreiðslu og fjárhagslegum stuðningi frá Hálfdáni Bjarnasyni aðalræðismanni í Genua. Framkvæmdastjóri þar var Ingólfur Thors sonur Thors Thors ambassadors í Washington. Þorvarður Árnason dvaldist eitt sumar á Ítalíu í samstarfi við Ingólf Thors.

Á fyrstu árum Dairy Queen var mikil gróska í rekstrinum. Það voru ekki einungis ísbúðirnar sem voru starfræktar heldur var stofnsett ísgerð og frystigeymslum komið upp víða um landið þannig að flestir urðu útsölustaðir yfir eitt hundrað talsins. Frystibíll flutti vöruna frá Reykjavík á þessa staði. Það fór því ekkert á milli mála að það framtak sem hófst árið 1954 hafði aukið mjólkursölu á Íslandi býsna mikið.

Einhvern tímann á tímabilinu nálægt árinu 1960 átti Þorvarður Árnason bróðir minn tal við mig og tjáði mér fremur dapur í bragði að Mjólkursamsalan hefði tilkynnt sér að hann yrði að hætta framleiðslu og dreifingu á mjólkurísvörum út um allt land og jafnvel að hætta einnig ísbúðarrekstri í Reykjavík þar sem Mjólkursamsalan væri nú í stakk búin til þess að annast þessa eða svipaða starfsemi milliliðalaust. Frystiskápar og frystigeymslur sem Dairy Queen fyrirtækið hefði eignast mundi Samsalan reyna að yfirtaka á kostnaðarverði eins og hann taldi hafa verið komist að orði.

Dairy Queen ísframleiðslan jafnaði sig raunar ekki eftir þetta og starfaði við breyttar aðstæður, sem m.a. stöfuðu af því að Mjólkursamsalan setti upp stórmyndarlegt ísframleiðslufyrirtæki.

Einn maður í okkar hópi, Gylfi Hinriksson, var alls ekki sáttur við þessi málalok og vildi að við gerðum tilraun til þess að komast yfir litla blöndunarstöð og útbúa blönduna sjálfir. Við hinir töldum það vonlítið.

En Gylfi gafst ekki upp. Hann stofnaði síðar ásamt fleiri mönnum Kjörís hf. sem er myndarlegt fyrirtæki.

Dairy Queen „ævintýrið“ vakti allmikla athygli fólks á sínum tíma og urðu stundum blaðaskrif um brask okkar sem að þessu stóðum. Þá þótti sumum Dairy Queen nafnið og vörumerkið óþjóðlegt og smekklaust.

Ástæða þess að ég rifja upp þessa sögu, að nokkru eftir minni, er sú að fyrir nokkrum vikum voru þættir í sjónvarpinu um Mjólkursamsöluna og taldi ég mig taka eftir því að alls ekki var minnst á þá starfsemi, sem ég hefi hér að framan gert að umtalsefni. Þó held ég að ísframleiðsla sé umtalsverður rekstrarþáttur í sambandi við Mjólkursamsöluna og því ekki óeðlilegt í sögulegu yfirliti að geta aðdraganda málsins.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður í Reykjavík.

Vilhjálmur Árnason“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Góð tíðindi af Orra
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Sögulegur léttir

Óttar Guðmundsson skrifar: Sögulegur léttir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Séra Örn Bárður Jónsson: Vissi lítið um trú – fékk opinberun og venti kvæði sínu í kross

Séra Örn Bárður Jónsson: Vissi lítið um trú – fékk opinberun og venti kvæði sínu í kross
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Nína Richter skrifar: Geðveikir galdrar á Tiktok

Nína Richter skrifar: Geðveikir galdrar á Tiktok
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Karl Ágúst Úlfsson: Aldurinn farinn að segja til sín – eins gott að þú ert að hætta

Karl Ágúst Úlfsson: Aldurinn farinn að segja til sín – eins gott að þú ert að hætta
Eyjan
Fyrir 1 viku

Karl Ágúst Úlfsson: Þýðingin sögð frumtextanum fremri – ekki lítið hrós fyrir tvítugan ungling

Karl Ágúst Úlfsson: Þýðingin sögð frumtextanum fremri – ekki lítið hrós fyrir tvítugan ungling
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Þrálát sóun á almannafé

Sigmundur Ernir skrifar: Þrálát sóun á almannafé