
Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi hefur ekki verið þekktur fyrir pólitísk afskipti síðan snemma á áttunda áratugnum þegar hann var formaður Einingarsamtaka kommúnista (maxistanna-lenínistanna) – sem gengu undir skammstöfuninni EIK(ml).
EIK(ml) voru samtök maóista – þau horfðu til Kína, ólíkt trotskíistum sem störfuðu í Fylkingunni. Þar var meðal annars innanborðs Már Guðmundsson seðlabankastjóri, en aðstoðarseðlabankastjórinn Arnór Sighvatsson var í EIK(ml). Flokkurinn var byggður á norskri fyrirmynd, í Noregi starfaði flokkur sem hét AKP(ml) – það var gert grín að því á Íslandi að Maó væri líklega norskur, því „hugsun“ hans bærist fyrst og fremst hingað frá Noregi, með námsmönnum sem þar höfðu dvalið – og voru almennt undir sterkum áhrifum frá Noregi.
Þannig voru EIK(ml) miklu heilnæmari samtök en Fylkingin – EIK-arar gengu í útivistarfötum og ræktuðu líkamann meðan Fylkingarmenn voru meira í því að reykja og drekka. Flokksaginn var líka miklu meiri hjá maóistum en trotskíistum – hinir síðarnefndu voru meiri bóhemar.
EIK(ml) átti svo einn erkióvin. Það var KSML sem seinna varð að Kommúnistaflokki Íslands(ml). Samkvæmt þessari grein á Wikipedia voru EIK-arar nokkuð víðsýnni en KSML-arar og reyndu að starfa innan annarra hreyfinga sem vildu breyta samfélaginu.
Ari Trausti var alla tíð formaður miðstjórnar EIK(ml). Samtökin lognuðust út af þegar leið á áttunda áratuginn. Og það skal tekið fram að talsvert af mektarfólki í samfélagi okkar starfaði í þessum kommúnistahreyfingum – sem virðast óneitanlega ansi kynlegar þegar litið er um öxl.
Málgagn EIK(ml) var Verkalýðsblaðið, málgagn Fylkingarinnar var Neisti en málgagn KSML var Stéttabaráttan. Blaðaútgáfa skipti miklu máli á þessum árum. Það er langt síðan maður hefur séð þessi blöð – kannski væri gaman að rifja aðeins upp kynnin af þeim? Hvað var unga fólkið að hugsa á þessum árum?