
Hannes Pétursson skáld er einn mesti stílisti sem nú er uppi á Íslandi. Hannes skrifar einstöku sinnum greinar í blöð og þá les maður. Hann er höfundur greinar sem birtist í Fréttablaðinu í morgun undir yfirskriftinni Bólguseðill.
Hér er brot úr greininni:
„Í því skyni að tákngera horbjúg íslenzku krónunnar betur en áður stendur til að gefa út nýjan verðbólguseðil, tíuþúsundkall. Og er ætlunin að mynd af Jónasi Hallgrímssyni prýði seðilinn, einnig mynd af heiðlóu sem vorboða. Vorboði Jónasar var reyndar þröstur. Svo er hitt að Jónas Hallgrímsson dó blásnauður, var jarðsunginn á kostnað annarra. Kannski á því seðillinn meðfram að vera vísbending um hliðstæð sögulok hins íslenzka krónubúskapar og væri það vel til fundið.
Í eðli sínu er gott og gilt að prýða peningaseðla með myndum stórmenna liðins tíma eins og alsiða hefur verið hér og víða um lönd, svo sem til brýningar og eflingar fjármálaviti þegnanna. Sú hefð hefur þó engu skilað á meðal vor. Jón forseti, Brynjólfur biskup Sveinsson, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson og enn fleiri urðu í áranna rás að litlum körlum hver á sínum seðli, í fullu samræmi við snúningshraða verðbólguhjólsins. Og er athugandi hvort nú væri ekki rökrétt að taka upp annan sið, þannig að valin yrði mynd af einhverjum sem naut ekki mikils álits út á við í lífinu fremur en íslenzka krónan um þessar mundir. Til er fjöldi ljósmynda af íslenzkum körlum og konum sem stóðu höllum fæti. Mér myndi lítast vel á Sæfinn á sextán skóm. Hann safnaði hlunkum og smáeyringum og geymdi þá haganlega.“