
Hér í frétt RÚV er sagt frá því að hópur hafi verið stofnaður á netinu þar sem fólk er hvatt til að fara út og tína rusl í svartan plastpoka.
Mun ekki af veita. Sóðaskapurinn í borginni eftir veturinn er almennur og skelfilegur – maður veltir því fyrir sér hvað sé að fólki sem hendir rusli út um allt.
Hvernig hegðar það sér á öðrum sviðum tilverunnar?
Maður lítur undir runna og út í horn – alls staðar er rusl.
Það segir í fréttinni að borgin ráði ekki við þetta.
Hún gengur reyndar ekki undan með sérlega góðu fordæmi. Götuhreinsun er afskaplega veikburða, nema helst á sumrin þegar starfskrafta skólafólks nýtur við, og sorphirða hefur verið skorin niður.
Í morgun var hirt sorp hér í hverfinu – þá voru liðnir fjórtán dagar frá því sorpið hafði verið tekið síðast, en á milli var páskahátíðin þar sem fellur til mikið heimilissorp.