
Í Kiljunni í kvöld verðum við á ferðinni í Skagafirði, nánar tiltekið á Hólum í Hjaltadal. Þar hittum við Hjalta Pálsson, sem er aðalhöfundur einnar mestu ritraðar sem nú er að koma út á Íslandi, Byggðasögu Skagafjarðar. Hjalti hefur unnið af mikilli elju við þetta verk, komið á alla bæi í Skagafirði – og fundið bæi sem voru öllum gleymdir og merkt þá.
Við stiklum á stóru í sögu Hólastaðar í fylgd Hjalta, en einnig hittum við þekktan útvarpsmann, skáld og klerk, Hjört Pálsson, sem segir okkur frá gripum í Hóladómkirkju.
Páll Baldvin og Kolbrún fjalla um tvær bækur: Snjómanninn eftir Jo Nesbö og ævisögu Þórhalls Bjarnarsonar eftir Óskar Guðmundsson.
En Bragi sýnir okkur dónalega vísu þar sem einn höfunda er Davíð Stefánsson.
