
Fyrir nokkrum árum var ég á ráðstefnu í Finnlandi og var þá boðið í aðalstöðvar Nokia. Það sýnir hversu mikilvægt fyrirtækið er að maðurinn sem tók á móti okkur var Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, maðurinn sem sagður er bera helsta ábyrgð á því að hafa komið Finnlandi í Evrópusambandið.
Hann var þá orðinn starfsmaður Nokia.
Aho romsaði upp úr sér tölum um hversu marga síma Nokia hefði framleitt. Það voru einhverjir milljarðar. Maður var náttúrlega mjög impóneraður af þessu.
Nú er þetta mikla fyrirtæki á fallanda fæti. Skýringin á því er að sumu leyti sú að það framleiddi of marga síma – þ.e. Nokia lagði of mikla áherslu á sjálfan símbúnaðinn, tækið, sem varð sífellt ódýrara. Snautt fólk í Þriðja heiminum var með Nokia síma, meðan rísandi samkeppnisaðilar fóru að átta sig á því að það var innhaldið sem var málið – hugbúnaðurinn.
Það er óvíst hvernig Nokia reiðir af, en þetta er verður sjálfsagt klassískt dæmi um hvernig fyrirtæki nær yfirburðastöðu á markaði – getur ráðið forsætisráðherra í vinnu hjá sér – en uggir ekki að sér þegar tæknin breytist og þarfirnar með.
Nú er það Apple sem er leiðandi í þessum bisness. Fólk er hvatt til að fjárfesta í fyrirtækinu í fjölmiðlum – sem í sjálfu sér ætti að vera viðvörun um að gera það ekki. Apple er í raun orðið óþægilega stórt. En ekkert er eilíft í heimi tækniþróunarinnar og maður veltir fyrir sér hvað verður Apple að falli – þegar þar að kemur.