fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
Eyjan

Framtíðarmúsík um flug

Egill Helgason
Fimmtudaginn 19. janúar 2012 21:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umræða um flugvöllinn í Vatnsmýri skýtur iðulega upp kollinum – jafnvel þótt málið sé ekkert sérlega aktúelt. Flugvöllurinn er ekki á leiðinni burt á næstunni. Þótt kveðið sé á um brottför hans í skipulagi er ekki farið að gera neinar ráðstafanir til að finna innanlandsfluginu stað annars staðar.

En það er ýmsilegt forvitnilegt að koma fram um þessi mál: Gísli Marteinn Baldursson, sem er sá borgarfulltrúi sem er hvað best að sér um skipulagsmál, spyr hvar eigi að koma  fyrir tuttugu og fimm þúsund borgarbúum á næstu tuttugu árum. Það er góð spurning. Auðvitað er hagkvæmast fyrir þróun borgarinnar að þeir séu vel innan núverandi borgarmarka. Reykjavík má ekki við því að þenjast meira út.

Það er ljóst að innanlandsflugið er í ákveðinni krísu. Áætlunarleiðum fer fækkandi, farmiðar eru dýrir – fólk er farið að keyra miklu meira en áður. Það þykir ekkert mál lengur að aka til Akureyrar – og flug til Vestmannaeyja hefur dregist stórlega saman með tilkomu Landeyjahafnar.

Breskur sérfræðingur flytur erindi á ráðstefnu hjá Isavia (hét það ekki Flugmálastofnun) og segir að miklar breytingar séu framundan í flugi. Framtíðin feli meðal annars í sér vélar sem þurfi afar stuttar flugbrautir.Þetta er mjög áhugaverð þróun.

Sérfræðingurinn segir að  flugvellir nálægt borgum séu mjög eftirsóttir. Í þeim felist mikil lífsgæði. Það er satt og rétt.

Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur kemur varla til greina – fjarlægðin er einfaldlega of mikil. Keflavík er reyndar óþægilega langt í burtu fyrir alþjóðaflugvöll líka. Eins og staðan er ekur maður á 45 mínútum úr miðborg Reykjavíkur til Keflavíkurflugvallar – það getur tekið lengri tíma ef verður er vont. Það er erfitt fyrir fólk sem er ekki einkabílum að komast á flugvöllinn.

Ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að Bessastaðanes sé feiki heppilegur staður fyrir flugvöll. Hvað varðar flugöryggi er varla hægt að finna betri stað. Eins og sjá má í meðfylgjandi grein lagði Gústaf E. Pálsson verkfræðingur til að flugvöllur yrði byggður á Bessastaðanesi á fjórða áratug síðustu aldar.

Nesið er enn óbyggt. Það er flatlent og opið til allra átta. Þarna væri í raun ekki bara hægt að setja niður innanlandsflugvöll, heldur er hugsanlegt að þarna verði líka alþjóðaflugvöllur. Það myndi efla höfuðborgina mikið ef alþjóðaflugvöllur væri í bæjarhlaðinu – gera hana samkeppnishæfari. Eitt af því sem var spennandi í hugmyndum Hrafns Gunnlaugssonar um flugvöll á Lönguskerjum var einmitt að þar yrði alþjóðleg flugumferð nánast inni í höfuðborginni.

Sjálfur kom ég á flugvöllinn í Boston um daginn. Það er merkilegt hvað hann er nálægt borginni sjálfri – án þess að maður sjái að það valdi sérstakri truflun.

Það er ekki víst að öll flugumferð þyrfti að flytjast á þennan flugvöll – eitthver hluti flugsins gæti verið áfram í Keflavík, fragtflug, flug lágfargjaldaflugfélaga.

Auðvitað geta verið ýmsar mótbárur gegn þessu: Það er mikið fuglalíf á Bessastaðanesi sem sumir myndu vilja vernda, kannski kæra íbúar Álftaness sig ekki um flugvöll – og svo er það bústaður forseta Íslands sem er á Bessastöðum.

Síðustu mótrökin finnst mér reyndar veigaminnst. Sem forsetabústaður eru Bessastaðir allt í lagi – en svosem ekkert stórkostlegir. Og – ég veit ekki hvort Bessastaðanes er sérstök náttúruperla umfram það sem gengur og gerist.

En ég tek fram að þetta er framtíðarmúsík – ekkert af þessu er að gerast á næstunni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Karl Ágúst Úlfsson: 110 þýðingar komnar – best að komast afsíðis

Karl Ágúst Úlfsson: 110 þýðingar komnar – best að komast afsíðis
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Jólatréð í Kokkedal

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Jólatréð í Kokkedal
Eyjan
Fyrir 1 viku

Karl Ágúst Úlfsson: Verst að tapa orðunum – spurði lækninn hvort hann kæmist ekki á skíði rétt eftir heilaaðgerð

Karl Ágúst Úlfsson: Verst að tapa orðunum – spurði lækninn hvort hann kæmist ekki á skíði rétt eftir heilaaðgerð
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Fellibylur í fingurbjörg – stjórnarandstaðan stígur í feitina og verður sér til minnkunar

Orðið á götunni: Fellibylur í fingurbjörg – stjórnarandstaðan stígur í feitina og verður sér til minnkunar