
Ný skýrsla sýnir að aðalspennuvaldurinn í bandarísku samfélagi er ekki kynþáttamisrétti heldur stéttarstaða.
Það er jafnvel farið að tala um að Bandaríkin séu á leiðinni að verða post-racial–samfélag þar sem kynþáttur skiptir ekki lengur máli.
Í staðinn er það ójöfnuðurinn sem er farinn að setja æ dýpra mark á samfélagið. Hann er meira að segja farinn að smitast inn í kosningabaráttu Repúblikana þar sem Mitt Romney er legið á hálsi fyrir að vera of ríkur.
Yfirleitt hefur það ekki þótt nein synd hjá Repúblikönum.
En nú er svo komið að hreyfanleiki milli stétta er óvíða minni en í Bandaríkjunum. Hann er til dæmis miklu meiri í Evrópu. Þetta er í nokkuð hróplegri andstöðu við ameríska drauminn og fyrirheit hans um óendanleg tækifæri.
Það eru ýmsar skýringar á þessu, en meðal þess sem er nefnt er himinhár kostnaður við menntun og heilsugæslu. Þá má líka nefna að verkalýðsfélögum hefur hnignað, réttindi verkafólks eru víða mjög lítil.
Bandaríski útvarps- og sjónvarpsmaðurinn Thom Hartmann var gestur í Silfri Egils á sunnudaginn. Við komum meðal annars inn á þetta efni.