
Morgunblaðið birtir í dag frétt þar sem segir að skýrslu um Vaðlaheiðargöng hafi verið stungið undir stól í samgönguráðuneytinu í ráðherratíð Kristjáns Möller. Segir að í skýrslunni komi fram að veggjöld þurfi að vera allt að tvöfalt hærri en ætlað er til að framkvæmdin standi undir sér. Það var Hagfræðistofnun Háskólans sem vann þessa skýrslu – en Alþingi hefur einmitt kallað eftir slíku plaggi.
Sé þetta rétt bregður það dálítið einkennilegu ljósi á þessa framkvæmd – helgar tilgangurinn algjörlega meðalið við að koma henni í kring?
Nú má vera að það sé hið besta mál að bora Vaðlaheiðargöng. Hins vegar er engin ástæða til að vera með einhvern skollaleik í kringum þau. Ef ríkið þarf að borga með framkvæmdinni er best að það sé á hreinu fyrirfram – það getur vel verið að pólitískur vilji sé til að gera göng á þeim forsendum. Það er hugsanlegt að ávinninginn af göngunum sé hægt að mæla í fleiru en krónum og aurum.
En það er ljótt afspurnar ef ráðamenn eru að lúra á upplýsingum. Þeir sem slíkt gera eiga ekki erindi í stjórnmál. Hugsanlega væri réttast í þessari stöðu að fá óháðan aðila (erlendan?) til að meta framkvæmdina upp á nýtt – eftir það er vonandi hægt að taka upplýsta ákvörðun.