
Það dynja yfir mann fréttir af ákafri kjarabaráttu bankastjóra. Þeim svíður greinilega hin bágu kjör.
Bankastjóri Seðlabankans, Már Guðmundsson, vill fá hækkun upp á 300 þúsund krónur á mánuði. Segir að um það hafi verið samið við sig.
Reyndar var það svo að launafólk víða um land – og líka hjá hinu opinbera – tók á sig kauplækkanir eftir hrunið og mætti kannski segja að væri sómi að ef seðlabankastjóri – sem á að gæta stöðugleika í landinu – væri stoltur af því að hafa lagt sitt af mörkum.
Þessar launakröfur Más vekja reyndar spurningar um hvernig var staðið að ráðningu hans á sínum tíma. Staðan var auglýst, en það var uppi orðrómur um að í raun hefði verið búið að semja við Má bak við tjöldin.
Er ekki hér komin staðfesting á því?
Annar bankastjóri sem er óánægður með kjör sín er Steindór Pálsson í Landsbankanum. Hann kom í sjónvarpsviðtal og kvartaði. Bankaráð Landsbankans vill fá völd til að ákveða kjör hans – samtryggingin lætur ekki að sér hæða.
Steindór vill fá sömu laun og stjórar bankanna sem eru í eigu vogunarsjóða. En – því miður – Landsbankinn er ríkisbanki og Steindór er ríkisforstjóri. Hví ætti hann til dæmis að hafa hærri laun en forsætisráðherra eða forsetinn – er ábyrgð hans meiri, starfið vandasamara?
Hver eiga laun bankastjóra að vera? Hefur ekki hrunið einmitt sýnt okkur að það er nákvæmlega engin fylgni milli ofurlauna í bönkum, hæfni og árangurs í starfi?
Hlutfallið gæti jafnvel verið öfugt – semsé að þeim mun lægri sem launin eru hjá bankastjórum, þeim mun heilladrýgra sé það fyrir samfélagið.