
Árni Þór Sigurðsson alþingismaður skrifar skynsamlega grein um makríldeiluna á heimasíðu sína. Árni vekur athygli á því að deilan um makrílinn snýst ekki um íslensku landhelgina, heldur er þetta í ætt við aðrar deilur þar sem er tekist á um flökkustofna. Og eins og Árni bendir á er nú gengdarlaus ofveiði úr stofninum – eins og menn séu búnir að gleyma því hvernig fór með stofna síldar og kolmunna.
„Nýlega var makríldeilunni líkt í blaðagrein við baráttuna um stækkun fiskveiðilögsögunnar og var þá meginboðskapurinn að í landhelgisdeilunni hefðu íslensk stjórnvöld staðið í lappirnar og væri það nokkur annar bragur en nú í makríldeilunni. Þessi samlíking er vægast sagt fráleit. Ekkert slíkt er á ferðinni hér fremur en yfirleitt þegar deilur standa um nýtingu flökkustofna. Ísland semur við ýmsa aðila, fleiri en ESB, um nýtingu á stofnum sem flakka úr einni lögsögu í aðra, t.d. við Norðmenn, Færeyinga og Rússa. Á stundum er ósamið um lengri eða skemmri tíma um skiptingu veiðiheimilda en engum hefur hingað til dottið í hug að tengja slíkt reiptog við útfærslu landhelginnar. Enda er það hrein fjarstæða. Það hlýtur því að liggja fiskur undir steini í þess háttar málflutningi. Verður ekki annað séð en að verið sé að reyna að koma því inn hjá þjóðinni að veiðar á makríl snúist um sjálfstæði Íslands hvorki meira né minna!
Íslendingar höfðu mikil áhrif á alþjóðalög með útfærslu landhelginnar sem var mikilvægur hlekkur í því að tryggja forræði Íslendinga yfir nýtingu sjávarauðlindarinnar. Samkvæmt alþjóðalögum er strandríkjum (og ESB fyrir hönd ESB-strandríkja) sem hlut eiga að veiðum í flökkustofnum skylt að ná samkomulagi um nýtingu þeirra. Makríldeilan snýst þannig um það hvernig eigi á sanngjarnan hátt að skipta takmarkaðri auðlind sem sannarlega er að finna í lögsögu þeirra strandríkja sem hlut eiga að máli. Ótrúlega lítið hefur verið fjallað um það hér á landi að veiði á makríl hefur undanfarin ár verið allt að 50% umfram ráðleggingar Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Jafnvel er látið í veðri vaka að Íslendingar eigi takmarkalausan rétt til að veiða allan þann makríl sem hugsast getur, þ.e. að Íslendingar beri enga ábyrgð á sjálfbærri nýtingu makrílstofnsins og öðrum komi hreint ekki við hvernig við umgöngumst þessa sameiginlegu auðlind. Þessi viðhorf þekkjum við einnig úr umræðu um orkunýtingu, þar sem því hefur verið haldið fram að nýta eigi sem fyrst alla orku sem vinnanleg er á Íslandi, hvort sem nýtingin er sjálfbær eða ekki. Það kemur mér ekki á óvart að svona sjónarmið heyrist, en það vekur hins vegar ugg þegar slíkar raddir koma úr röðum þeirra sem telja sig talsmenn umhverfis- og náttúruverndar í íslenskum stjórnmálum.
En nú gætum við spurt sem svo: „Eigum við að gæta makrílsins?“ Sannleikurinn er sá að það bera allir aðilar málsins ábyrgð á því að samkomulag náist um nýtingu makrílstofnsins og hlutfallslega skiptingu þeirra í milli. Íslendingar eru ekki undanskildir í því efni.“