
Næsti pólitíski vetur verður langur og erfiður mörgum.
Það er greint frá því á Vísi í dag Samfylkingin ætli að hafa prófkjör í október eða nóvember. Það er reyndar furðu snemma – því kosningar eru ekki fyrr en seinni partinn í apríl. Líklega mun þetta fyrirkomulag gagnast sitjandi þingmönnum, utanaðkomandi eiga erfiðara með að leggja í prófkjörsbaráttu svo löngu fyrir kosningar.
En það eru horfur á að þingmönnum Samfylkingarinnar fækki allverulega í kosningunum, þannig að baráttan um sætin verður hörð. Enn hefur enginn af þingmönnum flokksins lýst því yfir að hann sé að hætta.
Meiri líkur en minni eru taldar á að Jóhanna Sigurðardóttir hætti sem formaður fyrir kosningarnar. Hún getur reyndar að sumu leyti státað sig af ágætis árangri – en hún er forsætisráðherra á tíma þegar reiði fólks beinist að stjórnmálamönnum og ríkisstjórnir eru hvarvetna óvinsælar.
Efnahagsbatinn gæti auðvitað styrkt stöðu Samfylkingarinnar nokkuð – sem og sú staðreynd að flokkurinn verður líklega sá eini (fyrir utan Bjarta framtíð) sem mælir fyrir Evrópusambandsaðild í kosningunum. En formannsefnin sem helst eru nefnd eru býsna veik – Guðbjartur Hannesson, Katrín Júlíusdóttir, Árni Páll Árnason og Dagur B. Eggertsson eru ekki líkleg til að auka fylgi flokksins.
Athygli vekur að Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, er farinn að blogga af miklum móð – og að bloggfærslur hans eru þrælpólitískar. Það er ekki óeðlilegt að spurt sé hvort hann hyggi á prófkjör hjá Samfylkingunni – Stefán er rökfastur og hefur mikið vald á alls kyns upplýsingum og ætti sjálfsagt mjög góðan séns. Hann hefur líka þann kost að hafa ekki komið nálægt hinni óvinsælu stjórn Jóhönnu. Stefán gæti jafnvel fest augun á formannssætinu.