

Það ber vott um að nokkrar áhyggjur ríki í herbúðum Þóru Arnórsdóttur þegar stjórnarkona úr kvennahreyfingu Samfylkingarinnar skrifar og heldur því fram að Ólafur Ragnar Grímsson sé karlremba. Þetta fær nokkrar undirtektir hjá stuðningsmönnum Þóru á Facebook – jú, kannski hefur þetta einhver áhrif, en þetta er dálítið eins og að skjóta út í loftið í von um að það hitti.
Það eru þó miklu áhugaverðari hlutir að gerast í kosningabaráttunni, eins og þegar Ólafur Ragnar lýsir því yfir fullum fetum að forseti hafi utanríkisstefnu. Kristjáni Eldjárn og Vigdísi Finnbogadóttur hefði aldrei dottið í hug að þau hefðu sína eigin utanríkisstefnu. Bæði höfðu þau til dæmis verið á móti her í landi – það var stærsta deiluefni þeirra tíma – en þau pössuðu sig að hafa ekki neina skoðun á þessum málum á forsetastóli.
Ólafur gerist djarfari í túlkun sinni á forsetaembættinu með hverjum deginum. Hann virðist hafa eignast óvæntan bandamann í Svani Kristjánssyni. Stjórnmálamenn eru hins vegar farnir að skjálfa vegna þessa – og í raun gæti þarna verið tækifæri fyrir stuðningsmenn Þóru til að reyna að skilja eitthvað af Sjálfstæðisflokksfylginu frá Ólafi. Því forystu Sjálfstæðisflokksins líst alls ekki á Ólaf Ragnar í þessum ham, Sjálfstæðisflokkurinn gæti jú komist í ríkisstjórn og þurft að glíma við hann.
Það er sagt að Björn Bjarnason ætli að styðja Ara Trausta Guðmundsson. Það kemur vel á vondan, því Ari var í langan tíma foringi í einhverjum hörðustu kommúnistasamtökum sem hafa starfað á Íslandi.
En þarna eru markalínur. Ólafur Ragnar seilist til æ meiri valda, en á Þóru er að heyra að hún hafi aðrar hugmyndir um embættið. Hún mun ábyggilega ekki koma sér upp sinni eigin utanríkisstefnu og nú talar hún um að beita eigi málskotsréttinum í ítrustu neyð. Maður veit svosem ekki hver slík neyðartilvik yrðu – Vigdís tók sem dæmi eftir að hún lét af embætti að hún hefði aldrei samþykkt að dauðarefsingar yrðu teknar upp – en ef má marka þetta er hugsanlegt að Þóra myndi aldrei nota málskotsréttinn næði hún kjöri.
