

Það er oft merkilegt að heyra hvernig fólk talar um innflytjendamál.
Á sínum tíma fluttu tugmilljónir snauðra Evrópubúa til Norður-Ameríku í leit að betra lífi. Ég held að engum detti í hug að tala af óvirðingu um þetta fólk.
Við lifum í breyttum heimi – þeir sem reyna að komast frá fátækum löndum þar sem er lítil framtíð mæta hvarvetna lögregluvaldi. Þeir komast varla lönd og strönd – og neyðast oft til að brjóta lög sem kveða á um að menn skuli hafa rétta pappíra. Margir koma reyndar frá löndum þar sem er mjög erfitt að fá vegabréf.
Jú, þeir gætu svosem setið heima og sætt sig við hlutskipti sitt, ólíkt til dæmis Íslendingunum sem á sínum tíma fóru til Kanada.
Við getum sett fyrirvara á að taka við innflytjendum – þótt vissulega komumst við ekki af án þeirrra í gömlu Evrópu – en við skulum ekki leyfa okkur að tala um þá af óvirðingu.
Því þeir eru í nákvæmlega sömu sporum og ættmenni okkar fyrir aðeins meira en 100 árum – og eins og þekkt er úr sögu okkar var það oft dugmesta fólkið sem fór. Þetta er fólk sem yfirgefur ættjörð, heimili, fjölskyldu og vini og það upplifir sömu tilfinningar og við myndum gera í þeirra sporum – von, en líka söknuð og heimþrá.

Stephan G. Stephansson var einn Íslendinganna sem flutti til Kanada. Sagt er að hann sé eitt merkasta skáld þess lands. Hann orti þessar línur: „Ég á orðið einhvern veginn ekkert föðurland.“