
Ég er pínulítið undrandi á því að það skuli vekja athygli nú, árið 2012, þegar ég skrifa að Bónusfeðgar hafi ekki verið einhverjir sérstakir velgjörðarmenn alþýðunnar á Íslandi.
Ég hef reyndar skrifað þetta margoft – bent á þá einföldu staðreynd að þróunin sem hér varð svipaði mjög til þess sem gerðist annars staðar á Vesturlöndum og að í kringum verslunarrekstur þeirra varð til harðsvíruð einokun.
Mig minnir reyndar að ég hafi sett saman um þetta pistil strax nokkrum vikum eftir að ég hóf að skrifa á internetið, snemma árs árið 2000.
Pistillinn bar yfirskriftina, ef ég man rétt:
Hrói höttur flytur inn í höll fógetans af Nottingham.
Íslenskir stjórnmálamenn heyktust á því að taka á þessari einokun, og það er þeim til skammar að þeir fóru ekki af stað fyrr en Bónusfeðgar fóru að teygja sig yfir í fjölmiðlarekstur, þá fyrst töldu þeir sér ógnað.