

Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, skrifar áhugaverða grein í Fréttablaðið um Huang Nubo og fyrirhuguð umsvif Kínverja hér á landi. Einar hikar ekki að setja þetta í samband við opnun Norður-Íshafsins og hugsanlegar siglingar yfir það. Hann talar um landið sem
Nú er þetta reyndar partur af framtíðarplönum margra fyrir Íslandi, að landið verði mikilvægt einmitt vegna bráðnunar heimskautaíssins og að hér rísi höfn sem geti orðið miðstöð siglinga yfir Norðurpólinn. Það er talað um að slík höfn myndi verða byggð á Norðausturlandi. En það liggur í augum uppi að hún yrði að mestu leyti kínversk – að vörurnar sem um hana myndu fara kæmu að mestu leyti frá Kína.
Eða hvar annars staðar frá?
Einar, sem er einarður Evrópusinni, er á því að við eigum að vara okkur á Kínverjum. Hann talar um að Íslendingar misnoti orðið „vinátta“ þegar talað er um alþjóðasamskipti og segir:
„Vinsamleg tengsl þjóða og náið samstarf er milli þeirra sem hafa sömu hagsmuna að gæta og umfram allt aðhyllast sömu þjóðfélagsgildi.“
Sendiherrann lætur ímyndunaraflið njóta sín í greininni þegar hann talar um landakaupin á Grímsstöðum sem „bakland umskipunar-olíuhafnar norðarlega á Austfjörðum“.
Grímsstaðir eru nokkurn veginn eins langt frá sjó og hægt er að komast á Íslandi – kannski má halda því fram að miklu meiri hætta sé á að rísi einhver byggingahryllingur þarna nyrðra, í líkingu við það sem Eyjan segir að hafi verið stöðvað í Wales.
Máski er það þetta sem við erum að kalla yfir okkur fremur en kínversk yfirráð?
