
Í sumum ríkisstjórnum fyrri ára var mikið kvartað undan því að menn „hlypu“ með mál í fjölmiðla.
Það hentaði betur að ræða málin á lokuðum fundum ríkisstjórna, og þó ekki ríkisstjórna – því sá siður hefur lengi verið við lýði á Íslandi að formenn flokka í samsteypustjórn fari í raun með stjórn landsins sín á milli. Tali ekki við annað fólk frekar en þeim sýnist.
Við höfum séð þetta munstur hvað eftir annað – líka hjá Jóhönnu og Steingrími.
Guðmundur Hálfdánarson prófessor segir að ekki fari vel á því að stjórna ríki eins og rassvasafyrirtæki.
Það eru orð að sönnu.
En það þarf þá kannski að útrýma hugsunarhættinum – sem mótaðist mjög í tíð Davíðs Oddssonar – að það væri óheppilegt að upplýsingar bærust til þjóðarinnar nema þegar það hentaði í áróðursskyni.
Því stjórnmál á Íslandi snúast stjórnmál alltof mikið um áróður og um að skapa sér áróðursstöðu – á kostnað opinnar og upplýstrar umræðu.
Það er talað um að ekki hafi mátt ræða yfirvofandi bankahrun í ríkisstjórn vegna þess að menn óttuðust að Björgvin G. Sigurðarson myndi kjafta frá. En ríkisstjórnir eiga ekki að koma sér í þá stöðu að virka eins og leynifélag þar sem má ekki segja frá. Þessi staða hefði heldur ekki þurft að koma upp ef tekið hefði verið á vandanum fyrr og af einhverjum myndugleik.