
Í tengslum við heimsókn Wen Jiabaos, forsætisráðherra Kína kemur aftur upp umræðan um fríverslunarsamning við Kínverja. Það hafa verið í gangi viðræður milli ríkjanna um þetta, en þær sigldu í strand. Á sama tíma hefur það gerst að athafnamanninum Huang Nubo var meinað að kaupa land á Íslandi. Það studdist örugglega við meirihlutavija meðal íslensku þjóðarinnar, var semsagt vinsæl ákvörðun.
Það hafa verið í gangi viðræður um fríverslunarsamning við Kína. Þær hafa verið í pattstöðu og skýringarnar eru í rauninni ekki flóknar. Það er erfitt að gera fríverslunarsamning við ríki eins og Kína. Ýmsar ástæður eru fyrir því:
Kína er ekki réttarríki, öll völd þar er í höndum klíku sem nefnir sig kommúnistaflokk, aðbúnaður verkafólks þar er skelfilegur og Kína getur undirboðið flest lönd í heiminum hvað vinnuafl varðar.
Kína virðir ekki reglur um höfundarrétt og gagnkvæmni er ekki fyrir hendi – Kínverjar falast eftir því að kaupa land og fjárfesta á Vesturlöndum en setur miklar hömlur á landakaup og fjárfestingar í Kína.
Kína framleiðir ótrúlegt magn af varningi sem er búinn til lítinn tilkostnað, fluttur út og grefur undan iðnaði og verslun í ríkjunum sem kaupa af þeim, en á móti eru Kínverjar tregir á að kaupa vörur frá öðrum löndum. Það er erfitt að sjá að verði eitthvað jafnræði í þessari verslun.