
Líklega var það satt að Titanic gæti ekki sokkið. Það svamlar allavega enn um í vitund okkar – og gerir væntanlega um ókomna framtíð.
Titanic er eitt af stóru ævintýrunum í sögunni – það hefur allt, dramb, fall, hetjuskap, sorg og dauða og margar litlar sögur sem fléttast inn í stóru söguna.
Undanfarið hef ég séð heilar þrjár myndir sem segja frá Titanic, eða einhvern hluta af þeim. Mynd sem var í sjónvarpinu í gær er eftir höfund þáttanna Downton Abbey – það var nánast eins og Downton Abbey fært yfir á Titanic. Myndin gekk meira og minna út á stéttaskiptinguna sem er aðalatriðið í breskum þáttum af þessu tagi.
Stéttaskiptingin var reyndar ærin á Titanic – hin fræga mynd James Cameron fjallaði mikið um hversu skelfing þvingandi samfélag hástéttarinnar var fyrir einstaklinga. Það sem situr þó meira í manni er að farþegarnir á fyrsta farrými áttu miklu auðveldara með að bjarga sér en þeir sem voru á þriðja farrými.
Þetta er undir lok þess tíma sem nefnist belle epoque – þar hafði hið fína líf hástéttarinnar náð undursamlegri fágun. Tvær heimstyrjaldir bundu í raun endi á þetta. Núorðið hefur hástéttin mjög svipaðan smekk og allir aðrir.
En Titanic siglir semsagt enn – og þeir sem vilja fá brot af sögunni geta til dæmis keypt sér úr sem eru framleidd úr stáli úr skipinu fræga.
