
Hljómsveitin Svanfríður sem ætlar að koma saman í Austurbæjarbíói í kvöld var vinsæl þegar ég var í Hagaskóla. Þá máttu hljómsveitir enn koma og halda böll í gagnfræðaskólum – en stuttu síðar bönnuðu skólastjórar það. Það var mikið áfall fyrir hljómsveitabransann, tekjurnar sem sveitirnar gátu haft af spilamennsku snarminnkuðu. Þær höfðu ekki lengur nein verkefni í miðri viku.
Ég veit ekki alveg hvers vegna þetta bann var sett á, það var mikil bannárátta í íslensku samfélagi á þessum tíma, en ég held ekki að hljómsveitirnar hafi verið neitt sérlega siðspillandi. Við tóku ár þar sem var flutt tónlist af plötum á skólaböllum. Svo varð diskóið allsráðandi.
Ég man eftir að minnsta kosti tveimur Hagaskólaböllum með Svanfríði. Þetta var rosa stuðband – og flutningur þeirra mæltist geysivel fyrir, ekki síst trylltu þeir skólabörnin þegar þeir léku Alice Cooper slagarann School´s Out.
Kannski fór það fyrir brjóstið á skólastjórunum?
Svo gaf Svanfríður út plötuna What´s Hidden There? Hafandi verið á böllum með sveitinni keypti ég plötuna. Hún er nokkuð fágæt, skilst mér, og er á vísum stað í hljómplötusafni mínu inni í geymslu.
