
DV heldur því fram að Geir Haarde muni ekki sleppa undan landsdómsmálinu í atkvæðagreiðslu í þinginu á föstudag. Það verði tæpt, en Geir muni ekki sleppa.
Staðan er reyndar dálítið skrítin, því flokkslínur hafa ekki haldið í þessu máli.
Sjálfstæðismenn greiddu á sínum tíma atkvæði gegn öllum ákærum – og það gerði líka hluti Samfylkingarinnar, til að mynda Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Þau sátu jú í hrunstjórninni á sínum tíma. Í þingliði Samfylkingarinnar er ennþá Björgvin G. Sigurðsson, hann er sá eini sem situr á þingi af þeim sem stóð til að ákæra á sínum tíma.
Nú er hins vegar talið líklegt að Jóhanna greiði atkvæði með því að málinu verið fram haldið. Össur virðist ætla að vera fjarverandi.
Vinstri græn greiddu atkvæði með öllum ákærunum, en nú hefur kvarnast úr þeirri fylkingu. Ögmundur er genginn úr skaftinu, en af fyrrverandi þingmönnum flokksins er afstaða Atla Gíslasonar skrítnust. Hann virðist hafa orðið fyrir sinnaskiptum, en var áður í því hlutverki að leiða málið til lykta í þingmannanefndinni sem bar ábyrgð á því. Lilja Mósesdóttir ætlar hins vegar ekki að breyta afstöðu sinni.
Og innan Framsóknarflokksins hafa líka verið skiptar skoðanir um málið, nokkrir þingmenn flokksins greiddu atkvæði með ákærunni á sínum tíma – það er spurning hvað þeir gera núna.
Menn gera því skóna að ríkisstjórnin kunni að falla vegna málsins. Það er líklega ofmælt. Innan raða stjórnarliðsins hafa alltaf verið skiptar skoðanir um Landsdóm – og þótt kunni að vakna heitar tilfinningar er ekki lílegt að stjórnarflokkarnir láti steyta á þessu máli.