
Það hefur ekki heyrst af áhuga Kínverja á að kaupa Svefneyjar í Breiðafirði – sem nú eru til sölu.
Samt ættu Svefneyjar í raun að henta betur en Grímsstaðir á Fjöllum ef miðað er við áform Kínverja – sem við vitum reyndar ekki alveg hver eru.
Hafi þeir áhuga á að byggja upp ferðamennsku, þá eru Svefneyjar í raun draumastaður – þær eru í fallegum firði, það væri í hægt að byggja ógnarsmart hótel þar. Það rignir talsvert í Breiðafirðinum, en veðurfar er þó skaplegra en á Fjöllum.
En séu áformin meira í anda vondu karlanna í James Bond, þá eru líka miklir möguleikar. Til dæmis eru Svefneyjar úti í sjó, sem samræmist betur bollaleggingum sem hafa verið uppi um langtímaplön Kínverja en Grímsstaðir, sem eru nánast eins langt inni í landi og hægt er að komast. Það er auðveldara að gera skipalægi í Svefneyjum en á Grímsstöðum.
Svo má vera að sé ekkert plan, heldur séu Kínverjar á eyðslufylleríi út um allan heim.