
Ég er ekki viss um að gagnrýnin á borgarstjórnina vegna ófærðarinnar og hálkunnar undanfarið sé að öllu leyti réttmæt.
Það eru margir áratugir síðan svo langvarandi ótíð hefur verið í borginni. Viðbúnaður miðast eðlilega við það sem hefur verið undanfarin ár – sem hafa verið fjarska snjólétt. Það er engin von til þess að borgin eigi tæki og tól til að ráða fljótt úr ástandi eins og þessu.
Reyndar er ánægjulegt að heyra um fólk sem hefur farið út til að hjálpa samborgurunum – þegar svona gerist er ekki einungis hægt að stóla á hið opinbera.
Það sem vegur jafnvel þyngra er að borgin hefur stækkað mikið, það hafa risið ný hverfi þar sem eru mikil snjóþyngsli – gatnakerfið hefur þanist út með áður óþekktum hætti.
Aukinn bílafjöldi gerir líka erfiðara um vik þegar þarf að moka götur og gangstéttir.
Þetta hefur líka verið óvenju erfitt viðfangs, það hefur snjóað og hlánað á víxl, frosið ofan í bleytu með tilheyrandi hálku.
Maður les í fjölmiðlum að þetta hafi verið miklu betra áður fyrr. En ég held að það sé ekki rétt. Í miklu kuldaárunum í kringum 1980 var maður að klöngrast yfir hálfófærar götur og gangstéttir stóran part vetrar. Og eins og ég segi var borgin miklu minni þá, þá var Grafarvogurinn ekki til, ekki Grafarholtið, ekki Norðlingaholt og umferðarmannvirkin öll miklu smærri.