Fjölmiðlar eru að fjalla um skoðanakönnum um traust á fjölmiðlum sem birtist í dag, hún er gerð af fyrirtæki sem nefnir sig MMR.
Það er nauðsynlegt að geta þess að könnunin var gerð áður en rannsóknarskýrsla Alþingis birtist. Birting skýrslunnar var einn mesti tímamótaatburður í íslensku þjóðlífi á síðustu áratugum.
Að því leyti hlýtur skoðanakönnunin að teljast lítt marktæk.
Til dæmis kemur í ljós að vefmiðillinn Pressan nýtur nokkurs trausts í skoðanakönnuninni.
Undireins og skýrslan birtist vék ritstjóri Pressunnar og einn aðaleigandi úr starfi sínu, enda kom í ljós að hann hafði þegið stórkostlega og lítt skýranlega lánafyrirgreiðslu frá Kaupþingi.
Enn er mjög óljóst hvernig fjármögnun þessa vefsvæðis er háttað, en ljóst er að tala starfsmanna þar er margföld á við Eyjuna – og miklu meira fjármagn á bak við starfsemina. Tekjurnar eru þó varla mikið meiri.
Svo spyr maður sig: Hvernig stendur á því að fólk sem er spurt í svona könnunum ber enn svo mikið traust til blaða eins og Morgunblaðsins og Fréttablaðsins – fjölmiðla sem allir vita að eru í eigu auðmanna og hagsmunaaðila og eru í miklu basli með þau tengsl?