Ríkisstjórn norrænnar velferðar hefur gengið treglega að uppfylla loforð um stjórnlagaþing og persónukjör. Eða á kannski beinlínis að segja að hún sé í óða önn við að svíkja loforðin?
Jónas Bjarnason, bloggari hér á Eyjunni, fjallar um persónukjörið í nýjum pistli og segir meðal annars:
„Ég skrifa þessar línur um Steinunni ekki beint vegna þessa sem að framan greinir heldur vegna annarra mála. Fyrir stuttu mátti heyra í Þór Saari þingmanni Hreytingarinnar í útvarpi, sennilega Útvarpi Sögu minnir mig, segja frá því, að frumvarp í þinginu um persónukjör standi fast í allsherjarnefnd, en þar er Steinunn formaður. Persónukjör er áhugamál mitt og margra annarra og er það ef til vill virkasta leiðin til að „hreinsa til“ í þinginu. Það sem ég á við er það sama og margir aðrir hafa sagt og skrifað, skipta um fólk í þinginu, og fá burt þingmenn, sem eru vanhæfir eða hafa valist eingöngu vegna flokkshollustu og fylgir þá aðallega málum, sem hrjóta af óskalistum flokkanna.
Þór Saari lét þess líka getið, að Steinunn liggi á málinu vegna þess að hún og einhverjir aðrir þingmenn, þingkonur væntanlega, í VG einnig, séu að reyna að tryggja sæti fyrir konur sérstaklega í væntanlegu frumvarpi um persónukjör. Ef þetta er rétt eftir haft, þá beinlínis treysta tilteknir þingmenn ekki persónukjöri, eða aðferðafræðinni sjálfri, til þess að ná fram réttum hlutföllum á milli karla og kvenna í þinginu. Og ef þessi háttur þeirra er í alvöru, þá eru þær hugsanlega tilbúnar til að fórna hugmyndinni um rétt kjósenda til að velja fólk á lista eða tryggja kjör fólks í samræmi við óskir þess. Þeirra eigin skoðanir eða óskir um hlutfallafræði eru þarmeð teknar fram yfir grundvallarrétt kjósenda til vals á persónum. – Já, það er allt í lagi með að leyfa fólki að velja fulltrúa á þing en þó þannig, að útkoman endurspegli það sem „við viljum.“