Einar Karl Friðriksson efnafræðingur er með ágæta samantekt á því hvernig Icesave málið var höndlað árið 2008, fram að hruni, á bloggsíðu sinni. Einar byggir þetta á því sem stendur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Bretar þrýstu stöðugt á að eitthvað yrði gert, en ráðamenn á Íslandi héldu fast í aðgerðaleysisstefnu sína, virðast „meðvitað“ hafa forðast að horfa framan í afleiðingarnar sem málið gæti haft. Grein Einars endar á þessum orðum:
„Svo héldu Landsbankamenn bara áfram, og settu á stofn Icesave reikninga í Hollandi. Skýrslan segir það með öllu óskiljanlegt. Og íslensk stjórnvöld gerðu ekki neitt. Og þegar endanlega var ljóst að Landsbankinn væri fallinn og áhlaup hafið í stórum stíl á Icesave, kokkuðu stjórnvöld upp neyðarlögin og ætluðu að reyna að koma sér undan allri ábyrgð á Icesave sorgarsögunni, samkvæmt “Við borgum ekki skuldir óreiðumanna“-hugmynd DO, sem eins og ljós kemur í skýrslunni hafði eitthvert sjúklegt traustatak á þeim ráðherrum síns flokks, sem hér komu helst við sögu.
Er einhver hissa núna á fyrstu viðbrögðum Breta eftir hrun?„