Merkustu fréttr dagsins eru tillögur Obamas um að brjóta upp stóru bankana í Bandaríkjunum og setja fjármálastarfsemi þar í landi miklar takmarkanir. Þetta er í anda þeirra reglna sem voru settar um bandaríska bankakerfið eftir kreppuna miklu og nefnd voru Glass-Steagall lögin.
Lobbýistar fjármálakerfisins eiga sjálfsagt eftir að hamast gegn þessu, en þessi lagasetning gæti haft mikil áhrif. George Osborne, fjármálaráðherraefni breska Íhaldsflokksins, hefur lýst því yfir að hann sé samþykkur þessum hugmyndum. Bretar með sitt City gætu semsagt fylgt fordæminu frá Wall Street – án þess er talið nær óhugsandi að þeir láti til skarar skríða gegn fjármálakerfinu.
Obama leggur mikið undir. Hann beindi orðum sínum til bankanna og sagði:
„Ef þeir vilja berjast, þá er ég tilbúinn.“
Robert Peston skrifar á vef BBC og segir að þetta séu mjög stórhuga hugmyndir hjá forsetanum.