Sigrún Davíðsdóttir fjallar um nauðasamninga í pistli á Rúv. Félög eins og FL Group, Exista og Eimskip sigla inn í nauðasamninga, kröfuhafar, oft lífeyrissjóðir, samþykkja þar með að slegið sé striki yfir fortíðina, segir Sigrún. Pistillinn er í heild sinni hérna.
— — —
„Nú virðist sýnt að Exista fái nauðasamninga. Eins og einn viðmælandi Spegilsins sagði þá væri gjaldþrot Existu svo svakalegt að stóru kröfuhafarnir hljóta að kveinka sér við nauðsynlegar afskriftir þar. Önnur fræg félög sem fóru í nauðasamninga eru Eimskip og Stoðir, áður FL Group. Allir bankarnir lánuðu þessum félögum en eins og einn viðmælandi Spegilsins sagði þá voru félögin svo nátengd hvert sínum banka að nánast mátti tala um dótturfyrirtæki: Exista og Kaupþing, Eimskip og Landsbankinn, FL og Glitnir.
Þar með vill svo til að stórt vandræðabarn hvers banka fær nauðasamning – og bækurnar lokast. Þá fást litlar skýringar á viðskiptum félaganna sem vakið hafa undrun, umræður og tortryggni undanfarin ár. Félaga þar sem ríkar ástæður eru til að spyrja hvort stjórnendur hafi til dæmis gætt hagsmuna allra hluthafa. ‘Sorglegt’, segir einn viðmælandi Spegilsins, ‘hneyksli’ segir annar um þá niðurstöðu að lífeyrissjóðirnir skuli taka, eða sjá sig tilneydda að taka, nauðasamingum.
Öll áðurnefnd félög sem hafa fengið nauðasamninga báru einkenni spilltra félaga. Hvernig sem er í pottinn búið spilltu þau út frá sér eins og rotin epli því þau skekktu eðlilega viðmiðlun í íslensku viðskiptalífi. Það er aldrei útilokað að opinberir aðilar taki félög með nauðasamninga til rannsóknar. En fyrir þá sem vilja draga fram í dagsljósið sem mest af viðskiptum þeirra sem áttu íslensku uppsveifluna eru nauðasamningar hræmulega slæm niðurstaða.“