Hermann Stefánsson rithöfundur er höfundur þessarar greinar.
— — —
Voru þeir nema hálft ár, þessir nokkru góðu dagar án Davíðs – höfundar bókarinnar Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar?
Og æ, er á það bætandi að skrifa enn eina greinina um Davíð Oddsson og setu hans í ritstjórastól Morgunblaðsins? Hver sem það gerir virðist ekki bæta neinu við hugsun í landinu heldur aðeins hlaða undir umræðu um persónu mannsins sem nú er orðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Þeim tíðindum má í sjálfu sér fagna ákaft, þar er á ferð meira gagnsæi í fjölmiðlum en sést hefur lengi: Eigandi dagblaðs ræður ritstjóra sem er honum samstíga í skoðunum, fær sér hreinan og kláran málsvara. Blaðið verður þannig grímulaust málgagn ákveðinna afla innan Sjálfstæðisflokksins, andvígt ríkisstjórninni, andvígt Evrópusambandsaðild og án efa öldungis andvígt hverri hugmynd um að hrófla við núverandi kvótakerfi. Vestræn dagblöð hafa alla tíð virkað þannig að eigandi sem vill hafa áhrif í samfélagsumræðunni ræður sér ritstjóra sem málpípu (og síðan blaðamenn sem fá að leika mismikið lausum hala og oftast sjá um eigin sjálfsritskoðun). Morgunblaðið er í eigu kvótakónga. LÍÚ. Þulan mun ef að líkum lætur hljóða upp á að sjávarauðlindir Íslendinga eigi að vera í eigu Íslendinga: Það er að segja ríkra Íslendinga sem eiga kvóta eins og eigendur blaðsins. Fólk virðist álíta að Morgunblaðið sé ekki dagblað eins og hvert annað hægri sinnað blað á Vesturlöndum heldur íslenskt náttúrulögmál, svipað og veðrið, hríðin, sólin í ágúst.
Þetta skýrir kannski hvers vegna Morgunblaðið fær fúlgur fjár í afskrifaðar skuldir á kostnað almennings. Í því er engin glóra, ef tjáningarfrelsið og heilbrigt jafnvægi í samkeppni á fjölmiðlamarkaði er ástæðan fyrir þessu er eðlileg krafa sú að til dæmis smugan.is fái þrjá milljarða af almannafé í startkostnað því Smugan er einn af mjög gæfulegum vefmiðlum á Íslandi og þar er Eyjan fremst í flokki. Ekki þarf að litast lengi um í vestrænum fjölmiðlaheimi til að koma auga á að prentmiðlar eru á fallanda fæti og upplifa hvarvetna sitt lokaskeið meðan vefmiðlarnir vinna að því, misvel, að koma upp ritstjórnarbatteríum á netinu og aðferðum til að standa undir sér fjárhagslega. Spurningin er ekki hvort eða hvenær dagblöðin tortímast heldur hversu vel mun takast til að gera vefmiðlana þannig úr garði að þar sé hægt að vinna boðlegt efni, halda uppi vitrænni umfjöllun og fjármagna ritstjórnarkerfi með öllu sem þeim fylgir.
„Í heimsmynd Davíðs Oddssonar er yfirleitt allt öllum öðrum að kenna en honum sjálfum,“ skrifar Egill Helgason á Eyjuna. Lýsingar á sjálfsmyndum fóks eru í sjálfu sér sjaldnast raunverulega upplýsandi samfélagsgreining en þær eru þó eitthvað, skiljanleg viðbrögð. Við lýsingu Egils bæta að Davíð er að eigin mati sá eini sem varaði við hruni og má fyrir vikið þola ofsóknir og óhróður sem hann segist að vísu hafa nokkurt gaman af. Hvernig maður er það sem segist hafa gaman af ofsóknum? Hvaða sérkennilega tegund af kokhreysti er það? Í viðtali á Skjá einum kveðst hann mæta gríðarlegum meðbyr hvar sem hann fer, um götur og í verslanir, Davíð er greinilega maður sem tekur mikið mark á skjalli; en aftur á móti sparkar hann í níð nafnleysingjanna á netinu, en sú aðferð fer að verða klassísk vörn, að finna lægsta samnefnara í nafnleysingjum á athugasemdakerfum og sparka í þá sér til dýrðar og barma sér svolítið um leið: Aðferðin er tiltölulega örugg, það sama hafa tveir útrásarvíkingar gert í viðtali í Kastljósi, vafalaust að ráði almannatengils sem sá um undirbúning þeirra fyrir viðtölin. Ég efa að Davíð hafi þurft spunameistara til undirbúnings fyrir Spjall Sölva til þess að dæla upp úr sér frösum sem eru alþekkt sem hrein og klár áróðursbrögð og jafnvel notaðir í grunnskólum sem skólabókardæmi um skrum: „Það vita allir“ „Það er bara augljóst“ „deginum ljósara“. Hann hefur ekki þurft að leita ráða til að bæta hvert böl sem hann var spurður út í með því að benda á eitthvað annað og forðast þannig allar átakaspurningar, allar þær sem hann þá ekki beindi aftur til spyrjandans, sem einnig er notadrjúgt trikk, svolítið eins og að segja í sífellu: „Ég spegla það endalaust“ – en tala þó með yfirveguðum rómi svo það hljómi svolítið þroskaðra en þras úr fimm ára krakka. Morgunblaðið tjáir sig vafalaust um Icesave og beinir þeirri spurningu eitthvert annað hvort Icesave sé ekki einmitt á ábyrgð Davíðs sem var Seðlabankastjóri þegar samþykkt var að Icesave yrði skráð á Íslandi þrátt fyrir starfsemi sína erlendis meðan Kaupþing Edge, sem var í einu og öllu nákvæmlega eins uppátæki, fékk ekki að vera annað en dótturfyrirtæki í útlöndum sem engum ábyrgðum gat ýjað að. Davíðsarmi Sjálfstæðisflokksins var nefnilega meinilla við suma kapítalista meðan kærleikarnir við aðra áttu sér engin takmörk.
Í framtíðinni fá allir að vera frægir í fimmtán mínútur, sagði Andy Warhol eins og frægt er. Kannski mætti heimfæra þessi orð upp á íslenskar aðstæður og segja sem svo: Í framtíðinni fá allir að vera borgarstjóri, metsöluhöfundur, þingmaður, utanríkisráðherra, forsætisráðherra, Seðlabankastjóri og ritstjóri Morgunblaðsins í fimmtán mínútur. Í þeirri framtíð mætti kannski segja að allir Íslendingar væru ábyrgir fyrir hruni en í núinu er alveg öruggt að maðurinn sem tímaritið Times setur á lista yfir 25 einstaklinga sem beri ábyrgð á efnahagshruninu hefur þyngri bagga að bera en við hin. Það er jafn hreinræktuð heimska að telja hann blásaklausan og að halda því fram að hann beri einn ábyrgðina. Einkavæðing bankanna í öllu sínu glóruleysi var hans framkvæmd. Fjárglæframenn lögðu sitt til verksins í eftirleiknum.
En í einóðu landi er bara einn sem fær allar þessar mínútur, nú síðast sem ritstjóri Morgunblaðsins. Augljós hreinkapítalísk rök eru fyrir því að ráða Davíð sem ritstjóra. Hann að vísu kann ekkert fyrir sér í að ritstýra dagblaði og skilar sjaldnast frá sér góðum texta, ekki einu sinni villulausum eins og bækur hans bera merki um. En blætiskenndur áhugi lesenda á öllu sem frá honum kemur blasir við. Hann mun mótmæla afleiðingum eigin gjörða og tala um ömmu sína í leiðurum á milli þess sem hann mætir í yfirheyrslur. Hvað getur verið súrrealískara? Hvað er líklegra til að senda sæluhroll niður bakið á gagnrýnislausum aðdáendum en láta andstæðingana fá vægt hjartaáfall og eyða öllum sínum tíma í andmæli? Þegar við bætist að hann er klár náungi og meira að segja húmoristi, ég segi það satt, er gulltryggt að fjöldi fólks mun kynna sér skrif hans með sömu uppljómunarkenndinni og þegar hreinn sveinn gægist í eintak af Hustler sem liggur frammi á biðstofu rakara. Þeir sömu geta líka beðið skrifa Hannesar Hólmsteins með tilhlökkun því þess má vænta að einhver grynnsti hugsuður Íslandssögunnar, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, heilinn á bakvið einkavæðingu og útrás, láti til sín taka á síðum Morgunblaðsins til að andæfa afleiðingum ævistarfsins með rómuðum copy-paste aðferðum sínum. Og eitthvað sem er augljóslega alrangt hefur alltaf aðdráttarafl því það sendir sprúðlandi endorfínstrauma upp í heilann, ef gáfað fífl úr afdalasveit með grunnhyggna lífssýn, argaþras að lífsviðurværi og frjálshyggjuna að guðfræði nær ekki að selja blað þegar til viðbótar koma fabúleríngar frá einum helsta arkitekt hrunsins á Íslandi þá veit ég ekki hvað. Hannes Hólmsteinn er einn fárra manna sem hefur verið dæmdur fyrir grófan ritstuld á Íslandi og sýnt sig þannig gersamlega óhæfan til að sinna starfi í Háskóla Íslands þar sem hann kann ekki skil á grundvallarreglum vísindanna. Þetta er aðhlátursefni til jafns við ráðningu Davíðs en fólk bifast líka af kuldahlátri gagnvart hryllingsmyndum – og horfir samt.
Ef ég væri kapítalisti með hnignandi dagblað í höndunum hefði ég sennilega líka íhugað að ráða Davíð til að auka söluna svo ég næði máli á þeim nokkru mánuðum sem það tekur að keyra blaðið endanlega í þrot. Ef ég væri LÍÚ hægrimaður fyndist mér líka nú vera lag þegar búið er að gelda Lesbókina svo að enginn með sjálfsvirðingu skrifar þar lengur. Mér þætti lag því Samfylkingin stendur frammi fyrir því að meðan flokkurinn er jafn samhljóða í lofi sínu á ESB og austur-þýskur drengjakór á Stalínstímanum er meirihluti þjóðarinnar andvígur aðild Íslendinga. ESB-umræðan mun án efa komast í nýjan brennidepil nú með Morgunblaðinu. Þetta er að vísu hál hugsun því ESB er ekki óumdeilt innan Sjálfstæðisflokksins og allar líkur á því að ritstjóraútspilið kljúfi flokkinn í tvennt eftir endilöngu og þá eru áhöld um hversu vel gengur að veita aðhald ríkisstjórn sem að sönnu gengur hægt með sitt verk þegar aðferðin er svo fjarri öllu lagi. Og þá er ekki víst að það verði einu sinni þeim sjálfum til góðs þetta lag sem eigendur Morgunblaðsins hafa sætt til að ljá öllu einn blæ, einn tón og eitt yfirbragð, koma umræðunni yfir í form upphrópana og neyðarópa í stað gagnrýninnar umfjöllunar. Framleiða endorfín.
Því allt sem Davíð kemur nálægt fær persónulega merkingu, Davíðsmerkingu. Hann er geðveikur, segir annar maður sem myndi sóma sér ágætlega á lista Times, Jóhannes í Bónus, og sonurinn tekur undir. Það getur verið rétt en skiptir nákvæmlega engu máli og segir meira um afstöðuna til Davíðs en hann. Franski fræðimaðurinn Michael Foucault taldi afstöðu nútímamannsins til hinna vitfirrtu einkennast af tveimur villum: Orð vitfirringsins eru ýmist álitin dýrðlegur og dularfullur sannleikur af guðlegum uppruna eða fráleitir órar, rugl sem alltaf er ósatt og ber að þagga og hatast við. Samræða er því sjálfkrafa alltaf rofin. Þannig er Davíð, gangandi geðsjúkdómur. Krítískri hugsun verður hvergi komið við og það er ekki bara vegna þess hversu ókrítískur hann er sjálfur eða vegna skinhelgi og haturs á allri gagnrýni heldur afstöðu fólks til hans þar sem útilokað virðist að greina hlutina yfirvegað og segja sem svo að sumt sem hann lætur frá sér fara sé hárrétt, sumt hálfasannleikur og óskýr hugsun og annað klárlega rangt, rangfærslur, della sem ber að afskrifa kalt sem slíka þegar það stenst enga gagnrýna skoðun.
Fleiri góðir dagar án Davíðs eru semsé ekki í sjónmáli næstu mánuði. Nokkrir góðir dagar með Davíð – eða í það minnsta bærilegir fyrir meðvirkni, hysteríu og endurunninni tvípólun samfélagsumræðunnar – gætu falist í heilbrigðri viðhorfsbreytingu til geðsjúklinga, að skrifa þá hvorki hærra né lægra en annað fólk, að rétt eins og með alla aðra, hvort sem þeir eru ábyrgir fyrir hruni þjóðarhagkerfis eða ekki, er sumt sem þeir segja rétt, sumt hálfvelgjumoð og sumt bara kjaftæði.
Hermann Stefánsson
rithöfundur