Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan raunveruleikaþættirnir Keeping up with the Kardashians litu dagsins ljós árið 2007. Yngsta Kardashian systirin, Khloe, er fædd árið 1984 og var því 23 ára þegar þættirnir hófu göngu sína. Heimurinn hefur oft staðið á öndinni yfir gjörningum stóru systurinni Kim í lýtaaðgerðum og rassasöfnum en veitt Khloe minni athygli. Eins og þekkt er eru Kourtney, Kim og Khloe allar dætur Kris Jenner og lögfræðingsins Robert Kardashian sem lést árið 2003. Hann var einna þekktastur fyrir að vera verjandi O.J. Simpson árið 2005. Af þeim þremur hefur Khloe gjarnan verið stimpluð sem ljóti andarunginn. Hún er talsvert hærri, þybbnari og grófgerðari en eldri systur hennar og sá orðrómur hefur löngum loðað við hana að Robert sé ekki blóðfaðir hennar heldur O.J. Simpson en það hefur aldrei fengist staðfest.
Það er óhætt að segja að Khloe hafi gengið í gegnum talsverða umbreytingu á þeim 13 árum sem þættirnir hafa verið sýndir og virðist í raun vera allt orðin önnur manneskja í dag. Hún hefur stundað líkamsrækt grimmt sem landaði henni sjónvarpsþáttaseríunni Revenge Body With Khloe Kardashian og árið 2015 gaf hún út bókina Strong Looks Better Naked. Útlitsbreytingu Khloe má eflaust að einhverju leyti skrifa á stæltari líkama en flestir þykjast vissir um að hún hafi gengist undir fegrunaraðgerðir. Khloe kannast ekki við neitt slík og heldur því gallhörð fram að þetta sé allt farði. Þar sem það er himin og haf á milli konunnar á fyrstu myndinni sem var tekin 2007 og þeirrar sem var tekin í síðasta mánuði þá gæti hún mögulega verið að skrökva obbolítið.