Sara Sólveig Kristjánsdóttir, sálfræðinemi, segir nútímastefnumótamenningu einkennast af „færibandaframleiðslu og kapítalískri neysluhyggju“ í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir stefnumótamenninguna í dag snúast um leit að fullkomnun og að gera meira en næsti maður.
„Við höfum gjörsamlega glatað öllu heilbrigðu sjónarmiði þegar kemur að ást í nútíma samfélagi. Með tilkomu stefnumótasmáforrita og netvæðingu höfum við sogast enn lengra inn í spíral neysluhyggjunar sem nú einnig hefur tekið yfir ástina,“ segir Sara Sólveig.
Um daginn gómaði hún sjálfa sig segja upphátt: „Hann er alltof rauðhærður fyrir mig.“
„„Ha, hvað meinarðu?“ sagði vinkona mín. „Já, æj, ég myndi alveg fíla hann ef hárið hans hefði annars konar rauðlitan blæ.“ „Díses kræst.“ Hvað er að gerast. Þetta er svo absúrd,“ segir Sara Sólveig.
Hún segir það fullkomlega í lagi að fólk hafi sinn smekk „en þessi hugsunarháttur í sambandi við að finna ástina er farinn að verða ógurlega vélrænn.“
Sara Sólveig veltir því fyrir sér hvort þessi hugsunarháttur muni flytjast yfir á börnin okkar.
„Munum við í framtíðinni með tilkomu aukinnar tækni getað átt við gen í fósturvísi þar sem við getum handvalið útlit og persónueinkenni barnanna okkar? Þetta fer bráðum að vera spurning um siðferði,“ segir hún.
„Við höfum sogast inn í vítahring kapítalískrar neysluhyggju. Við erum sjálfhverfir bavíanar sem þurfum á sífelldri viðurkenningu að halda frá umheiminum.“
Þú getur lesið pistil Söru Sólveigar í heild sinni í Morgunblaðinu.