fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024

Alexandrea lætur allt flakka: „Ég hélt alltaf að ég væri aumingi“ – Fordómar vegna vefjagigtar

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 11. september 2019 12:00

T.v. Alexandrea Rán T.h. Vefjagigt ef hún myndi sjást utan frá.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alexandrea Rán er tvítug og var greind með vefjagigt fyrir mánuði síðan. Hún er einnig í landsliðinu í kraftlyftingum. Alexandrea er í 70 prósent vinnu, 100 prósent námi og æfir kraftlyftingar 5-7 sinnum í viku.

„Samhengi sem á ekki að ganga upp en gerir það samt af því að alla daga legg ég harðar að mér en ég gerði daginn áður. Suma daga kemst ég ekki fram úr, suma daga tek ég 80 kg í bekkpressu. Ég fæ mjög oft að heyra að ég geti ekki verið með vefjagigt fyrst ég geti æft svona mikið,“ segir Alexandrea.

Hún segir ástæðuna fyrir því að hún hefur ákveðið að stíga fram og segja sögu sína vera vegna fordóma sem hún hefur fundið fyrir upp á síðkastið.

„Mér finnst því kominn tími til að láta allt flakka og gera fólki grein fyrir því að þetta er ekki alltaf dans á rósum,“ segir hún og útskýrir nánar hvers konar fordómum hún hefur orðið fyrir.

„Ég vinn á dvalarheimili og get ekki verið í hundrað prósent vinnu. Ég hef þurft að vanda til verka og passa líkamsbeitingu og passa að vinna ekki of mikið. Þegar ég reyni að útskýra þetta fyrir fólki hef ég fengið að heyra: „Bíddu hvað meinarðu, þú ert að æfa svona mikið, af hverju áttu að þurfa að vinna minna?“ Eða: „Af hverju geturðu ekki lyft þessum í vinnunni þegar þú ert að lyfta lóðum heima?““ Segir Alexandrea.

https://www.instagram.com/p/B1BYTrygERG/

Tók þrjú ár að fá rétta greiningu

„Ég var ekki greind með vefjagigt fyrr en fyrir rúmlega mánuði síðan en það er búið að taka þrjú ár að fá rétta greiningu. Ég var greind með hrygggigt hjá heimilislækni í mars á þessu ári, en fékk síðan rétta greiningu hjá gigtarlækni fyrir mánuði síðan,“ segir Alexandrea og lýsir sjúkdóminum.

„Hjá mér lýsir það sér þannig að mér líður alltaf eins og ég sé rosalega brothætt. Það þarf rosalega lítið til að ég þurfi að leggja mig, hvíla mig eða setjast niður. Það er eins og ég sé með ekkert úthald og þó það hafi ekki komið neitt fyrir, ég hafi ekki meitt mig, gert of mikið af einu né neinu, þá er ég alltaf verkjuð. Ég finn alltaf til hvort sem það er í bakinu eða fótunum, þá finn ég alltaf til,“ segir Alexandrea.

„Þetta er mjög misskilinn sjúkdómur. Það tók þrjú ár fyrir mig að fá greiningu því að fyrstu einkennin voru þessi ofsaþreyta sem ég fékk,“ segir hún.

„Þetta var mjög langt ferli en ég hef líka ákveðið forskot þess vegna því ég er ekki að fá neinar nýjar fréttir. Læknirinn var ekki að segja mér eitthvað sem ég vissi ekki, því ég hef þurft að læra á mig sjálfa. Eina sem breyttist er að ég veit núna af hverju mér líður svona, ég hélt alltaf að ég væri aumingi og það væri eitthvað ekki í lagi. Ég hélt að ég hefði fæðst 90 ára,“ segir Alexandrea og hlær.

https://www.instagram.com/p/B03TYANAlvy/

Yfir þessi þrjú ár var Alexandrea send í hinu ýmsu rannsóknir og próf.

„Ég var send í svefnrannsóknir, sett á járntöflur, alls konar blóðprufur. Ég veit ekki hversu margar blóðprufur ég hef farið í til að mæla öll vítamín. Það var athugað hvort ég væri með kvíða og hvert þetta væri ekki bara andlegt, hvort ég væri ekki bara þreytt því ég væri þunglynd. En svo fann ég það að með því að lyfta þungum lóðum þá var ég allt í einu ekki svo brothætt. Þegar ég lyfti er mér allt í einu ekki illt og ég er ekki þessi veikburða einstaklingur sem þarf að fara vel með sig. Heldur ég er bara í núinu og ég er að lyfta og ég er sterk,“ segir Alexandrea.

Pirrandi hvað hún var þreytt

Aðspurð hvort hún hafi fundið fyrir þessum fordómum sem hún lýsir fyrir greiningu svarar Alexandrea neitandi.

„Þá voru þetta ekki beint fordómar, heldur meira svona vinkonum mínum fannst leiðinlegt að ég hafði ekki úthald til að vera á djamminu, og mömmu fannst ofboðslega pirrandi að ég var bara sofandi inn í herbergi í stað þess að vera frammi með fjölskyldunni. Þetta var svona almennur pirringur og skilningsleysi. En núna eru allir komnir með ástæðu og þá líta allir upp og segja: „Jáá nú skil ég, nú meikar þetta allt sens.““

https://www.instagram.com/p/B1lgugTA9dD/

Var sár út í samfélagið

Alexandrea kynntist kraftlyftingum fyrir einu og hálfi ári og er núna í landsliðinu í kraftlyftingum.

„Fólk skilur ekki af hverju ég vel að nota orkuna sem ég hef í lyftingar frekar en að vinna hundrað prósent og keyra mig þannig út,“ segir hún.

Alexandrea opnaði sig um greininguna og fordómana í Facebook-hópnum Motivation Stelpur og vakti færslan mikil viðbrögð. Hún fékk mikinn stuðning frá kynsystrum sínum og falleg skilaboð. Hún segist ekki hafa búist við þessum viðbrögðum.

„Ég var voða sár út í samfélagið þegar ég skrifaði færsluna. Ég hafði lent í ágreiningi varðandi þetta og var bara ógeðslega sár. Mér fannst eins og það skildi enginn hversu mikið ég væri að leggja á mig til að halda öllu saman. Hversu mikið ég væri að leggja á mig til að mæta í vinnuna og mæta á æfingar og vera í fullu námi, því þetta er basl þegar maður er með vefjagigt. Ég ákvað bara: Ókei þá sýni ég þeim það, þá fer ég bara á Instagram og sýni fólki að þetta er svona mikið basl. Ég þarf að taka svona mikið af vítamínum og lyfjum til að halda mér gangandi. Ég þarf að leggja mig svona oft á dag til að komast á æfingu. Það þýðir ekki fyrir mig að deila bara myndböndum þegar mér gengur vel á æfingu eða þegar ég er sæt út að borða og ætlast svo til þess að fólk skilji. Maður verður líka að gera fólki grein fyrir því sem er í gangi svo það átti sig á því hvað er raunverulega á bakvið það,“ segir Alexandrea.

https://www.instagram.com/p/ByoLZx3gY6f/

Keppir á alþjóðlegu móti

Eftir þrjá daga er Alexandrea að fara að keppa á sínu síðasta alþjóðlega móti á þessu ári. Undirbúningur fyrir mótið hefur reynst henni erfiður en hún hefur verið í miklu verkjakasti síðastliðnar vikur.

„Ég æfi yfirleitt alltaf í gegnum verkina. Að æfa hjálpar að lina verkina. En ég lenti í því í síðustu viku að komast ekki á fætur í þrjá daga vegna þreytu, því þessu fylgir ofboðslega mikil þreyta. Það hefur áhrif bæði á æfingar og andlegu hliðina. Ég veit að þetta gerðist því ég vann of mikið, ég veit alveg upp á mig sökina,“ segir hún.

Aðspurð hvort það sé eitthvað sem hún vill að fólk viti um vefjagigt segir Alexandrea:

„Hreyfing er það besta sem þú gerir. Það er rosalega stór mýta sem fylgir vefjagigt sem snýst um að öll hreyfing eigi að vera í lágmarki og fólk eigi að hreyfa sig sem hægast. Mín skoðun er sú að um leið og þú gefst upp og hættir að æfa, þá minnkar alltaf getan til að geta byrjað aftur. Þá er þolið alltaf að fara að vera minna og minna. Þetta verður erfiðara því meira sem þú minnkar við þig.“

Þú getur fylgst með Alexöndreu Rán á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Elon Musk sakar Ástrali um ritskoðun: „Hrokafullur milljarðamæringur,“ segir ráðherra

Elon Musk sakar Ástrali um ritskoðun: „Hrokafullur milljarðamæringur,“ segir ráðherra
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Sjö stjórar til skoðunar hjá United – Efast um nokkra sem eru á blaði

Sjö stjórar til skoðunar hjá United – Efast um nokkra sem eru á blaði
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Samtal Liverpool við Slot virkt

Samtal Liverpool við Slot virkt
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Villa staðfestir gleðitíðindin

Villa staðfestir gleðitíðindin
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Sjáðu athyglisvert myndband sem Óli Kalli birti – „Bara ef ég fæ að vera með Gylfa“

Sjáðu athyglisvert myndband sem Óli Kalli birti – „Bara ef ég fæ að vera með Gylfa“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.