fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Harmsaga Alexöndru – „Ég þorði ekki að gera neitt nýtt því þyngdin stoppaði mig í einu og öllu“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 6. ágúst 2019 13:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alexandra Arndísardóttir Sadiku er 25 ára tveggja barna móðir sem býr á Akranesi. Við báðum Alexöndru um að lýsa sjálfri sér og segist hún telja sig mjög hressa og skemmtilega, og hún elski athygli.

„Ég er ákveðin og frek og læt engan segja mér hvað ég á eða á ekki að gera. En ég er með mjög lítið hjarta,“ segir hún.

Sögu Alexöndru mætti lýsa sem harmsögu. Hún var lögð í mikið einelti sem barn vegna þyngdar sinnar. Þegar hún var unglingur tók kennari við keflinu og tók hana reglulega úr tíma til að leggja henni línurnar um hvernig hún ætti að verða „heilbrigðari.“ Fósturheimili og BUGL lituðu unglingsár Alexöndru og í hvert skipti sem henni leið illa, þá borðaði hún.

Alexandra glímdi við mikið meðgönguþunglyndi og það versnaði eftir að hún eignaðist son sinn. Fyrstu átján mánuði af lífi hans var ekki hægt að greina kyn hans, en hann fæddist með litningagalla. Eftir að hafa eignast annað barn tók hún erfiða ákvörðun og afsalaði sér forræði yfir drengjunum. Sjálfsvígstilraunir í kjölfar fæðingarþunglyndis, innlagnir á geðdeild, þátttaka í Biggest Loser og mikil vanlíðan tók við næstu ár. Hún hataði sjálfa sig og hvernig hún leit út. Henni fannst hún einskis virði.

Það var ekki fyrr en Alexandra ákvað að elska sig sjálfa, alveg eins og hún er, að henni byrjaði að líða betur. Í kjölfarið fór hún að hreyfa sig og borða minna, en hún segir jákvæða líkamsímynd vera lykillinn að öllu hjá sér.

Alexandra sem barn. Mynd: Úr einkasafni

Alltaf verið stór

„Ég hef verið stór og þétt frá því að ég man eftir mér, eða réttara sagt frá og með fæðingu. Þegar ég var fimm ára var ég rúm 38 kíló og það fór versnandi með árunum,“ segir Alexandra.

„Ég greindist með mjög vanvirkan skjaldkirtil þegar ég var barn. Ég hef verið á lyfjum við því frá þeim degi. En svo fannst mér svo gott að borða. Ég borðaði þegar mér leið vel en ég borðaði sérstaklega mikið þegar mér leið illa. Ég borðaði þó að ég væri ekki svöng og alltaf borðaði ég það mikið að mig langaði að kasta upp í lokin því það var ekki meira pláss í maganum. En það stoppaði mig ekki,“ segir Alexandra og heldur áfram.

„Ég borðaði einnig vegna þess að ég var með rosalegan mótþróa. Alltaf þegar fólk nefndi það hvernig ég leit út eða að ég væri að borða of mikið, þá varð ég að borða meira, bara til að pirra fólkið í kringum mig. Þegar mamma spurði: „er þetta ekki komið nóg?“ fékk ég mér annan disk því ég þoli ekki þegar fólk reynir að stjórna mér.“

Alexandra Arndísardóttir Sadiku. Mynd: Eyþór/DV

Lögð í einelti

Alexandra var lögð í einelti í grunnskóla vegna þyngdar sinnar. „Ég var lögð í einelti í 1.–5. bekkjar af eldri krökkunum því ég var feit. Ég hætti að mæta í skólann alla mánudaga og föstudaga til að stytta vikuna. Ég lét mig oft hverfa úr skólanum því mér leið svo illa. En ég get ekki sagt að ég hafi ekki átt vini. Ég hef alltaf verið mjög opin og fljót að kynnast nýju fólki, svo ég hef aldrei verið vinalaus, sem betur fer,“ segir Alexandra.

Hún segir að þótt hún hafi verið vinmörg í grunnskóla hafi eineltið haft mikil áhrif.

„Eineltið lét mér líða illa, borða meira og gera hluti sem ég sé eftir. Ég til dæmis stríddi annarri stelpu sem var í nákvæmlega sömu sporum og ég því mér fannst ég þurfa að sýna mig fyrir stóru krökkunum,“ segir Alexandra.

Kennari tók við keflinu

Alexandra fór í annan skóla eftir 5. bekk og eignaðist þar marga vini sem henni þykir enn mjög vænt um í dag. En því miður hætti eineltið ekki þar. Kennari tók Alexöndru fyrir.

„Í skólanum var einn kennari sem gat ekki látið mig í friði vegna stærðar minnar. Hún átti það til að taka mig úr tímum til að fara inn á skrifstofu og búa til „boost“ fyrir mig eða draga mig út í búð og kenna mér að kaupa hollan mat. Þarna var ég í sirka sjöunda bekk. Hún skóf ekkert utan af því hvernig ég leit út og hvað henni fannst um það. Hún nefndi það í tíma og ótíma hvað væri best fyrir mig að gera,“ segir Alexandra.

„Það fyndna við þetta er að þessi kona var frekar þétt sjálf og hefur enn ekkert gert í þeim málum, þótt það komi mér lítið við, en mér þótti það frekar súrt. En ég lét líka í mér heyra þegar hún var búin að fjarlægja mig úr tímum nokkuð oft, en það endaði með að ég var rekin úr þeim skóla og fór aftur í minn gamla.“

Þegar þangað var komið var Alexandra byrjuð að sýna mikla áhættuhegðun. „Ég var farin að hanga með eldra fólki, stinga af, byrjuð að reykja og drekka, stunda kynlíf og haga mér mjög illa. Ég endaði á fósturheimili fyrir vestan sem var mjög fínt og mér leið ágætlega. En vanlíðanin var mjög mikil og ég stakk aftur af.“

Alexandra segir það skipta öllu máli að læra að elska sjálfan sig. Mynd: Úr einkasafni

Byrjaði í neyslu

Alexandra flutti frá Akranesi í Árbæinn. Fljótlega fór hún að byrja að stela og fikta við fíkniefni. „Ég mætti aldrei í skólann, vaknaði bara snemma á morgnana svo mamma myndi halda að ég væri á leið í skólann, en ég fór alltaf niður á Hlemm eða upp í Kringlu að hitta þar krakka sem mættu heldur ekki í skólann. Mamma vissi það ekki fyrr en skólastjórinn hringdi tveimur mánuðum seinna og lét hana vita að ég hefði ekkert mætt í skólann,“ segir Alexandra.

Alexandra var þá send á Hraunberg, vistheimili fyrir börn. Hún byrjaði að borða meira og brjótast inn. Næst var hún send til Neskaupstaðar í fóstur í tíu mánuði og sá tími var mjög erfiður tími fyrir hana.

„Ég var farin að stela mat úti um allt á heimilinu þannig það voru settir lásar á ísskápinn, alla skápa sem eitthvað matarkyns var inni í og öllum herbergjum læst,“ segir Alexandra.

Á þessum tíma lærði Alexandra hverjir hennar raunverulegu vinir væru og hjálpaði það henni að verða edrú.

Alexandra Arndísardóttir Sadiku. Mynd: Eyþór/DV

Fór þrisvar inn á BUGL

Alexandra var lögð þrisvar sinnum inn á BUGL (barna- og unglingageðdeild) vegna andlegrar vanlíðunar.

„Ég skaðaði sjálfa mig margoft með alls konar tækjum og tólum vegna þess að mér leið illa vegna útlits míns og ég skammaðist mín svo rosalega. Ég þorði ekki að gera neitt nýtt því þyngdin stoppaði mig í einu og öllu,“ segir Alexandra.

Fann föður sinn

Mikilvæg tímamót áttu sér stað í lífi Alexöndru rétt fyrir jólin 2010.

„Ég fann loksins pabba minn eftir ævilanga leit. Mér fannst ég hafa fundið púsl sem vantaði í púsluspilið. Pabbi minn býr í Svíþjóð og ég fór þangað að hitta hann sumarið 2011,“ segir Alexandra. Faðir hennar er frá Kósóvó.

„Við fórum í langt ferðalag og ég sá margt út í Kósóvó. Einnig ferðuðumst við mikið um Albaníu, sem mér þótti æðislegt. En í dag er ég í litlu sambandi við pabba og hans fjölskyldu, þótt ég viti varla ástæðuna.“

Alexandra Arndísardóttir Sadiku
Alexandra Arndísardóttir Sadiku og yngri sonur hennar. Mynd: Úr einkasafni

Erfið meðganga

Árið 2013 fór Alexandra út sem au-pair til Manchester. Hún var þar í rúman mánuð og varð ólétt. Þegar hún kom aftur heim áttaði hún sig á því að hún væri með rosalegt meðgönguþunglyndi, sem hún segir hafa komið vegna lífsreynslu hennar og áfalla.

„Ég fór í alls konar meðferðir og læknisheimsóknir sem gerðu lítið sem ekkert fyrir mig,“ segir Alexandra.

„Þegar ég fékk síðan barnið í hendurnar kom upp hugsun, sem ég sé mikið eftir í dag, en ég hugsaði: „hver ætlar að taka þetta barn með sér heim, ég vil það ekki.“ En fyrsta spurningin sem ég spurði var hvaða kyn barnið væri. Það var engin leið að sjá það þar sem það fæddist með litningagalla sem greindist ekki fyrr en fimm dögum seinna, eftir margar rannsóknir og DNA-próf. Hann fæddist með XO-litning þannig það var ekki staðfest 100 prósent af hvoru kyni hann var fyrr en hann varð 18 mánaða,“ segir Alexandra.

Alexandra og eldri sonur hennar.

Mikið fæðingarþunglyndi

Á þessum tíma borðaði Alexandra meira en áður. „Mér leið ógeðslega. Fæðingarþunglyndið var svakalegt og ég endaði nokkrum sinnum inni á geðdeild vegna sjálfsvígstilrauna. Á geðdeild var ég greind með BPD, áfallastreituröskun, þunglyndi (level max), kvíðaröskun og fékk einhverjar fleiri greiningar sem ég nenni ekki að telja upp,“ segir Alexandra.

„Ég átti að fá áfallahjálp og tíma hjá geðlækni eftir að ég átti strákinn minn, en ég fékk það aldrei. Ég reyndi að ná sambandi við áfallateymið á Landspítalanum, geðlækni á geðdeild Landspítalans og allt það batterí, í eitt og hálft ár en fékk aldrei nein svör svo ég gafst upp. Eftir að allt gekk sem verst þá sótti ég um aðstoð hjá barnavernd á Akranesi. Ég fékk stuðningsfjölskyldu í Reykjavík sem var algjört æði. Nema það var bara of mikið vesen að ferðast með hann á milli því ég var og er ekki með bílpróf. Þannig að ég þurfti að ganga allt, koma honum í strætó til og frá Reykjavík, og eins og flestir þekkja þá fylgir litlum börnum mikill farangur. Ég var náttúrlega svo rosalega þung og átti mjög erfitt með hreyfingu. Á endanum gafst ég upp á að fara með hann til Reykjavíkur.“

Alexandra fékk stuðningsfjölskyldu á Akranesi, sínu bæjarfélagi. „Sú fjölskylda hefur gert allt sem hún getur til að hjálpa mér,“ segir hún.

Alexandra ásamt móður sinni og yngri syni. Mynd: Úr einkasafni

Afsalaði sér forræðinu

Árið 2016 eignast Alexandra annan strák. „Ég hafði hvorki andlega né líkamlega heilsu til að sjá um þá heima. Barnavernd bauð mér tímabundið fóstur og stuðningsfjölskyldan vildi taka þá báða að sér, sem mér þótti og þykir enn svo vænt um,“ segir Alexandra.

„Barnavernd lofaði að hjálpa mér í andlegum veikindum mínum. En ég fékk aldrei hjálpina. Það var ekki fyrr en ég afsalaði mér forræðinu yfir drengjunum til átján ára aldurs, sem barnavernd varð loks reiðubúin til að hjálpa mér.“

Drengirnir fóru ekki á nýtt heimili heldur fékk stuðningsfjölskyldan fullt forræði yfir drengjunum.

„Ég hefði ekki getað ekki fundið betra heimili fyrir þá. Þau hafa gert allt til að láta bæði mér og strákunum mínum líða betur,“ segir Alexandra.

Faðir eldri drengs Alexöndru er frá Pakistan. „Hann hefur hvorki áhuga né löngun til að hafa samband. Ég veit ekkert hvar hann er staddur í heiminum og hann hefur aldrei tekið þátt í lífi drengsins,“ segir Alexandra. Hún segir föður yngri drengs hennar vera í myndinni en hann „mætti sýna meiri lit.“

Alexandra Arndísardóttir Sadiku. Mynd: Eyþór/DV

Iðrast ákvörðunarinnar

„Ég sé mjög mikið eftir þeirri ákvörðun að afsala mér forræðinu yfir drengjunum. Ég mun aldrei fyrirgefa sjálfri mér fyrir að hafa gert það, þar sem ég gerði það gegn mínum vilja. Barnavernd neyddi mig í það og eina ástæðan sem þau gátu gefið mér var að tími minn væri að renna út,“ segir Alexandra og útskýrir að hún fékk tímabundið fóstur í tvö ár.

„Það vilja allir að ég fari í mál við barnavernd,“ segir hún en bætir við að það ætli hún ekki að gera. „Eina ástæðan fyrir því að ég vil ekki fara í mál sú að ég elska fjölskylduna sem strákarnir mínir eru hjá. Ég myndi aldrei vilja neitt vesen okkar á milli. Ef það væri ekki fyrir þau, þá myndi ég fara í mál.“

Alexandra er í góðu sambandi við drengina og fær þá til sín aðra hverja helgi. Ef hún biður um að fá þá oftar, þá segir hún það vera ekkert mál. Yfir sumartímann er hún einnig mikið með þá, og svo er stór plús hvað þeir búa nálægt henni.

T.v. Alexandra þegar hún tók þátt í Biggest Loser 2015. T.h. Alexandra eftir Biggest Loser, hún missti 40 kíló á stuttum tíma. Mynd: Úr einkasafni

Biggest Loser

„Ég hélt alltaf áfram að borða tilfinningarnar mínar og ég fitnaði svakalega. Ég fékk nóg á þessum tímapunkti og sótti um að komast inn í Biggest Loser Ísland árið 2015. Ég komst inn og var 175 kíló, minnir mig, þegar ég byrjaði,“ segir Alexandra.

Hún var í þáttunum í níu vikur af tíu. „Mér gekk mjög vel. Ég missti 40 kíló á mjög stuttum tíma. En þegar ég kom heim skeit ég upp á bak. Ég fitnaði mikið aftur og var orðin 186 kíló í janúar 2018. Sjálfsmyndin var hræðileg. Mér fannst ég bara feit og ljót og einskis virði. Ég var ekki með neina sjálfsvirðingu og lét vaða yfir mig eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég svaf hjá mönnum án þess að hafa nokkurn áhuga á því og fannst það bara vera nákvæmlega það eina sem ég ætti skilið því ég væri hvort eð er feit og fengi ekkert betra, að ég ætti ekki skilið að vera elskuð.“

Ákvað að elska sig sjálfa

Alexandra byrjaði mjög ung að reyna að grennast. Hún prófaði alla kúra sem völ var á, alla hreyfingu sem var í boði og æfði allar þær íþróttir sem hún vissi að væru aðgengilegar á Akranesi. „Ég reyndi allt. En ég gafst alltaf upp,“ segir Alexandra.

„Ég fór á Herbalife, ég prófaði ketó, danska kúrinn, að fasta, djúsa og allt sem þið getið talið upp, en ég bara náði ekki að festa mig í þessu öllu saman. Ég fór alltaf að borða meira en ég gerði áður en ég byrjaði. Hvað þá eftir Biggest Loser Ísland, þá fyrst át ég sem mest eftir að keppninni lauk því mér leið bara ekki vel,“ segir Alexandra.

„Það var ekki fyrr en í janúar 2018 sem ég sagði hingað og ekki lengra. Orðin um 186 kíló. Ég tók þá ákvörðun að líta í spegil og telja sjálfri mér trú um að ég væri flott eins og ég var og að ég ætti skilið meiri virðingu og ást þótt ég liti út eins og ég gerði þá.“

Alexandra er ánægð með sig í bikiníi. Mynd: Úr einkasafni

Syndir í sjónum

Eftir að Alexandra ákvað að elska sjálfa sig skilyrðislaust byrjaði henni að líða betur og í kjölfarið fór hún ósjálfrátt að hreyfa sig meira og borða minna. „Ég hef ekkert þurft að passa mig eða fylgjast sérstaklega með því sem ég geri. Ég byrjaði að fara í sjósund í október 2017 og er enn í því. Ég fer að minnsta kosti einu sinni í viku og reyni að synda sem mest í sjónum. En er alltaf langduglegust yfir sumartímann. Ég byrjaði einnig að fara í fjallgöngur með góðum hóp í sumar,“ segir Alexandra.

„Ég er ekki að hreyfa mig sérstaklega til að missa einhver kíló, heldur aðallega til að bæta þolið mitt. Þetta snýst ekki um kíló heldur um árangur minn, hvort ég sé búin að bæta þolið og hvernig fötin passa á mig; hvort þau séu víðari og stærri.“

Ofnæmi fyrir ræktinni

Alexandra segir að hreyfingin sé það erfiðasta við þetta ferli.

„Að hreyfa sig með 186 kíló utan á sér er hrikalega erfitt get ég sagt ykkur. Og hvað þá upp brekkur, ég verð móð við tilhugsunina en ég læt það ekki stoppa mig. Mér er farið að finnast gaman í göngum og að hreyfa mig, svo lengi sem það er alls staðar annars staðar en í líkamsræktarsal. Ég bara þoli illa ræktina, held ég sé með ofnæmi fyrir svoleiðis stöðum,“ segir Alexandra.

Hún segir að það komi aldrei auðveld stund. „Ég ætla ekki að ljúga því að þetta sé bara ekkert mál. Þetta krefst rosalegrar sjálfsvinnu. Það tók mig mörg ár að komast á þann stað sem ég er á í dag. Ég er ekki að segja að ég muni ekki þyngjast aftur á einhverjum tímapunkti. En ég held að ég hafi betri stjórn á mér núna en áður og mun því ekki hrynja eins langt niður og ég hef alltaf gert, og verð vonandi fljótari að koma mér svo aftur á ról,“ segir Alexandra.

Eftir að Alexandra byrjaði að elska sjálfa sig byrjaði hún að hugsa betur um sig. Mynd: Úr einkasafni

Jákvæð líkamsímynd mikilvæg

Að sögn Alexöndru leikur jákvæð líkamsímynd gríðarlega stórt hlutverk í hennar lífi. „Ég leit á mig sem eitthvert ómerkilegt hyski. Vanmáttuga og einskis virði. Þegar ég áttaði mig loksins á því hvað ég ætti skilið, hversu mikils virði ég væri og hvað ég ætti mikið eftir af lífinu, þá varð ég svo mikið öruggari með sjálfa mig,“ segir Alexandra.

„Áður klæddi ég mig eingöngu í svört föt og helst allt of stór. Innan undir stóru peysunni var ég í að minnsta kosti tveimur bolum til að halda bumbunni inni. Eða ég gekk í alltof flegnum bol því ég hélt það væri það eina sem strákar vildu sjá, því þá fengi ég einhverja jákvæða athygli frá karlmönnum, sem reyndist mjög vitlaus hugsun,“ segir Alexandra.

„Í dag klæði ég mig bara eftir veðri og vindum, ég nota alla liti og ég kaupi mér föt eftir því hvort mér finnist þau flott og þægileg, ekki eftir því hvað felur mest. Ég elska sjálfa mig eins og ég er og ég elska að klæða mig fínt. Ég er með helling af æðahnútum, sliti, fellingum og appelsínuhúð en ég er loksins hætt að fela það. Ég fór alltaf í sund í sundbol og stuttbuxum og helst bol yfir. Í dag er ég í bikiníi og mér hefur aldrei fundist ég jafn flott.“

Að lokum vill Alexandra gefa öðrum í sömu og sporum og hún var í ráð. „Lærðu að elska sjálfa þig nákvæmlega eins og þú ert. Það er erfiðara en að segja það, en þú getur það. Ef einhver annar getur elskað sig, af hverju getur þú það ekki líka? Þetta tekur tíma en þetta er hægt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Fögnuður Óskars í Noregi vekur mikla athygli – Af hverju var þetta lag undir?

Fögnuður Óskars í Noregi vekur mikla athygli – Af hverju var þetta lag undir?
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Þetta eru leikirnir sem liðin í titilbaráttu eiga eftir – Hvar endar sá stóri?

Þetta eru leikirnir sem liðin í titilbaráttu eiga eftir – Hvar endar sá stóri?
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Um átta af hverjum tíu óánægð með að Bjarni hafi sest í stól forsætisráðherra

Um átta af hverjum tíu óánægð með að Bjarni hafi sest í stól forsætisráðherra
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Bjarni og Inga nokkuð sammála um að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar hafi verið verulegur

Bjarni og Inga nokkuð sammála um að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar hafi verið verulegur
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Hefur fulla trú á sínu liði gegn ógnarsterkum andstæðingi – „Þurfum að horfa á okkur sjálfa en ekki of mikið á þá“

Hefur fulla trú á sínu liði gegn ógnarsterkum andstæðingi – „Þurfum að horfa á okkur sjálfa en ekki of mikið á þá“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Mikil gleðitíðindi fyrir Víking

Mikil gleðitíðindi fyrir Víking

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.