Ekkert er komið á borð KSÍ um meint kynþáttaníð í Árbænum í gær. Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra sakaði leikmann Fylkis um rasisma eftir leikinn.
Davíð vildi ekki segja frá því sem gerðist eða hvaða leikmenn áttu í hlut en benti á að meint atvik hefði gerst þegar allt sauð upp úr.
„Eina sem við vitum er það sem komið hefur fram í fjölmiðlum,“ segir Jörundur Áki Sveinsson starfandi framkvæmdarstjóri KSÍ við 433.is. Hann sagði skýrslu dómara ekki komna á borð þeirra og hann gæti því ekki sagt til um það hvort eitthvað kæmi fram þar. Málið yrði þó skoðað.
Þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks sauð allt upp úr en Ibrahima Balde og Silas Dylan Songani leikmenn Vestra koma þar við sögu. Báðir eru dökkir að hörund. Þetta sést vel á upptöku Stöð2 Sport frá leiknum þar sem þeir eiga í samskiptum við tvo leikmenn Fylkis hið minnsta.
Þar rífast þeir meðal annars nokkuð harkalega við Ragnar Braga Sveinsson, fyrirliða Fylkis. Samkvæmt heimildum 433.is áttu Davíð Smári þjálfari Vestra og Ragnar Bragi svo samskipti eftir leik þar sem mönnum virtist heitt í hamsi.