Matvæli með sama lotunúmer og matvæli sem fundust í kjallara að Sóltúni 20 þar sem rottur og önnur meindýr léku lausum hala, fundust í veitingastöðum Pho Víetnam á Laugavegi 3, Tryggvagötu 20 og Snorrabraut 29. Þetta kemur fram í umfjöllun Heimildarinnar en matvæli á síðastnefndu tveimur stöðunum voru einnig með sömu dagsetningu og matur sem fannst í áðurnefndum hryllingskjallara.
Í umfjölluninni kemur fram að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi farið í óboðað eftirlit á alla fimm veitingastaði Pho Vietnam-keðjunnar þann 3. október síðastliðinn. Daginn áður höfðu vertakar á vegum eftirlitsins fargað mörgun tonnum af mat úr kjallaranum alræmda sem talin voru heilsuspillandi. Í kjölfar aðgerðanna var mat fargað hjá Pho Vietnam á Suðurlandsbraut 8 og þá var starfsemi þar takmörkuð sem á veitingastað keðjunnar á Laugavegi 3.
Davíð Viðarson, betur þekktur undir víetnömsku nafni sínu Quang Lé, á og rekur veitingastaði Pho Vietnam en hann á sömuleiðs hreingerningafyrirtækið Vy-þrif ehf. sem er skráð fyrir kjallaranum í Sóltúni. Þá á hann sömuleiðis 40% hlut í veitingakeðjunni Wok on mathöll.