Myndir af ruslahrúgu sem birtar voru i Facebook-hópnum Vinna með litlum fyrirvara hafa valdið nokkurri umræðu og reiði meðlima hópsins.
Sá sem tók myndirnar gaf leyfi DV til að vekja athygli á málinu, en myndirnar tók hann í gær. Segir hann að hann hafi eftir eftirgrennslan fengið þær upplýsingar að eigandi ruslsins hafi óskað eftir þjónustu innan hópsins til að fara með ruslið í Sorpu og greitt fyrir þá þjónustu:
„Svona endar þetta hjá ykkur sem eruð að óska eftir ódýrri þjónustu til að losna við ruslið ykkar. Þessi stóra ruslahrúga var í Heiðmörk í dag,“ segir Jónas Björgvinsson í færslunni.
„Það voru meðal annars plastumbúðir utan af þvottavél í hrúgunni merkt nafni og síma eiganda. Ég hringdi í þann aðila sem staðfesti að óskað var eftir þjónustunni á þessari síðu. Þessi síða stuðlar bara að náttúruspjöllum, svindli og skattsvikum. Skammist ykkar og hættið viðskiptum hér og snúið ykkur að löglegum fagaðilum. Þetta er bara rugl,“ segir Jónas.
Í athugasemd segir ein að nafngreina ætti aðilann sem tók að sér að henda ruslinu. Svarar Jónas að eigandi ruslsins sé aðeins með óskráð símanúmer, en viti ekki nafn eða deili á þeim sem tók að sér að henda ruslinu.
Jónas segist ekki hafa getað skilið ruslið svona eftir, heldur tók það að sér að fjarlægja ruslið og koma því í grenndargám. „Ég gat ekki skilið þetta eftir.“
Nokkrir benda á ekki eigi að greiða „svona þjónustu fyrr en aðilar senda mynd af kvittun frá Sorpu og helst með efnið í sorpinu í bakgrunni.“