Héraðsdómur Reykjavíkur hefur birt manni fyrirkall í Lögbirtingablaðinu og er maðurinn kvaddur til að koma fyrir dóminn þann 14. nóvember næstkomandi.
Fyrirkallið er birt vegna þess að ekki hefur tekist að birta manninum ákæru en hann er búsettur í Danmörku. Maðurinn er ákærður fyrir að hafa beitt sambýliskonu sína ofbeldi á heimili þeirra í Langarima í byrjun árs 2021, „…með því að hafa tekið hana í tvígang hálstaki, veitt henni ítrekuð hnefahögg í andlit, á bringu og upphandleggi, hrint henni og slegið í andlit hennar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut heilahristing, mar á höfði, í andliti, á handleggjum og á hnjám, roða á hálsi og eymsli á spjaldhrygg,“ segir í ákæru.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Sambýliskonan gerir kröfu um miskabætur upp á 2,5 milljónir króna.
Fyrirtaka verður í málinu við Héraðdóm Reykjavíkur þann 14. nóvember.